Helgarsprokið 16. september 2012

Vefþjóðviljinn 260. tbl. 16. árg.

Samkvæmt nýbirtri skoðanakönnun myndu 98% Íslendinga kjósa Barack Obama ef þeir mættu kjósa í bandarísku forsetakosningunum. Heil 2% myndu kjósa Mitt Romney.

Þessi gríðarlegi munur segir talsverða sögu. Hvernig getur staðið á honum? Getur virkilega verið svona mikill munur á þessum tveimur mönnum? Mitt Romney hefur lítið verið í íslenskum fréttum, þannig lagað, svo varla getur skýringin verið sú að nær allir landsmenn hafi að vandlega ígrunduðu máli komist að þeirri niðurstöðu að einmitt hann sé ómögulegur. Og Barack Obama, hvað með hann? Jú, hann virðist vera viðkunnanlegur maður og afbragðs ræðumaður auðvitað, en hvaða árangri hefur hann náð sem réttlætt getur 98% fylgi? Efnahagsástandið í Bandaríkjunum hefur ekki batnað á valdatíma hans. Og ef horft er til áhugamála Evrópubúa þá er bandaríski herinn enn í Afganistan og fangarnir í Guantanamo eru þar enn, eftir tæp fjögur ár af friðarverðlaunahafanum Obama í Hvíta húsinu.

Hvað getur þá kallað á 98% fylgi annars frambjóðandans en 2% fylgi hins?

Ætli það sé ekki sú útbreidda sannfæring Evrópubúa að demókratar séu upplýst og hófsöm góðmenni sem vinni að friði og mannréttindum, en repúblikanar séu stríðsóðir hálfvitar á mála hjá stórfyrirtækjum og hugsi helst um að banna fóstureyðingar, lemja homma og hneppa svarta menn í þrældóm?

Ef menn yrðu spurðir hvort annar flokkurinn í Bandaríkjunum væri neikvæðari í kosningaáróðri sínum en hinn, ætli Evrópumenn yrðu þá ekki fljótir að benda á repúblikana? Voru þeir ekki alltaf að rægja Hillary? Ef menn yrðu spurðir hvor flokkurinn njóti yfirburðastuðnings stærstu fjölmiðla vestanhafs, ætli flestir Evrópumenn yrðu ekki líka fljótir að benda á repúblikana? Þessi viðbjóðslega Fox-stöð styður þá og á henni eru flestir geðbilaðir. 

Þó er það svo, að útbreiddustu blöð og sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna hallast mjög til vinstri. En ekki hægri. New York Times sem íslenskir vinstrimenn kalla ætíð „stórblaðið New York Times“ hefur í sextíu ár lýst yfir stuðningi við hvern einasta forsetaframbjóðanda demókrata, en evrópskir fjölmiðlamenn telja blaðið alltaf jafn mikla heimild um bandarísk stjórnmál. Íslenska ríkisútvarpið gerir sérstaka frétt um stuðningsyfirlýsingu blaðsins í hvert sinn, svo merkilegt þykir vinstrimönnum „stórblaðið“. Á flestum sjónvarpsstöðvunum er mikil vinstrisveifla. Hún er hins vegar ekki á Fox-stöðinni, enda hata vinstrimenn hana út af lífinu. 

Á Fox-stöðinni eru umræðuþáttir þar sem stjórnendurnir fá að fara sínu fram, og þeir eru flestir íhaldsmenn eða á bandi repúblikana. Þeir fá auðvitað til sín vinstrisinnaða álitsgjafa sem tala máli demókrata og Obama, en þrátt fyrir það er talsverð hægri slagsíða á þáttunum. Sumir þáttanna minna að forminu til jafnvel á umræðuþátt á íslenskri sjónvarpsstöð þar sem stjórnandi fær að fara sínu fram og fá til sín þá gesti sem hann vill að tali yfir alþjóð. Verða skoðanabræður stjórnandans þá gjarnan fyrirferðarmiklir á kostnað talsmanna annarra sjónarmiða.

Ef Evrópumenn yrðu spurðir hvorir væru nú fróðari og upplýstari menn, forystumenn demókrata eða repúblikana, þá yrðu svörin líklega einhæf. Flestir myndu þegar í stað svara því til að repúblikanar væru fávísir en demókratar upplýstari. Af hverju ætli það sé? Þar kemur eflaust til slagsíðan á fjölmiðlunum. Það vantar auðvitað ekki að til eru neyðarleg ummæli ýmissa áberandi repúblikana. Að ógleymdum atvikum eins og þegar Qualye tókst ekki að skrifa kartafla. 

Allskyns slík ummæli og neyðarleg atvik eru skýr í huga margra. En það er líka af því að fjölmiðlar hafa hent þau á lofti og endurtekið hvað eftir annað. 

Staðreyndin er sú að menn mismæla sig, einkum þegar þeir tala óundirbúið. Það hendir demókrata jafnt sem repúblikana, alveg eins og það hendir bæði örvhenta og rétthenta. Og bandarískir stjórnmálamenn sem lá langt, eru undir stöðugri smásjá. Fjölmiðlamenn hafa því úr mörgu að moða vilji þeir sýna stjórnmálamanninn í neyðarlegu ljósi. Og þar hafa þeir flestir einfaldlega miklu meiri áhuga á repúblikönum en demókrötum.

Og að lokum, hefur einhver heyrt af því að Barack Obama, friðarverðlaunahafi Nóbels, hafi talað opinberlega eins hann héldi að ríki Bandaríkjanna væru vel yfir fimmtíu talsins? Nei, sennilega hafa fáir heyrt af því. En flestir hefðu fengið að heyra það rifjað reglulega upp í mörg ár, ef George W. Bush, rægðasti maður Vesturlanda síðasta áratuginn, hefði átt í hlut. En Barack var víst þegar búinn að heimsækja 57 ríki þegar hér var komið sögu:   

Auðvitað eru þetta sárasaklaus mismæli og segja ekkert um Obama annað en að hann er mannlegur. En ef Bush hefði átt í hlut, að ógleymdri Söru Palin sem næstum hver einasti Evrópubúi veit að er hálfviti, þá hefðu hlátrasköllin glumið um alla Evrópu frá suðri til norðurs. 

En ef Bush eða Palin hefðu talað eins og þau héldu að til væri ríki sem héti Evrópa. Ætli það hefði þótt sýna vanþekkingu þeirra á utanríkismálum? Ætli það hefði komist í íslenska fréttatíma? Það gæti verið. En ef sjálfur friðarverðlaunahafinn talaði þannig?  

Ef einhver fávís repúblikaninn hefði farið í opinbera heimsókn til Austurríkis, talað þar á fundi og tekið fram að hann vissi ekki hvernig tiltekið enskt orðalag myndi hljóma á „austurrísku“, ætli það hefði þótt fyndið í Evrópu? Sennilega. Að vísu þótti það ekki mjög merkilegt þegar 98% frambjóðandinn var á ferð:

Lengi mætti rekja svona dæmi. En þau sýna auðvitað ekki að Barack Obama sé hálfviti, því það er hann alls ekki. Hann er einfaldlega mannlegur og menn, sem þurfa samfellt að tala blaðlaust og eru auk þess undir verulegu álagi, þeir mismæla sig. Rétt eins og George W. Bush gerði ítrekað eins og allir vita vel. En fjölmiðlamenn hafa einfaldlega mismikinn áhuga á að sýna demókrata og repúblikana í neikvæðu ljósi. 

Það er hins vegar munur á mismælum og vanþekkingu. Sum ummæli geta verið til marks um vanþekkingu. Það á fyrst og fremst við þegar menn flytja skrifaðar ræður sem þeir hafa getað undirbúið lengi. Við þær aðstæður má gera allt aðrar kröfur til þeirra, en það er annað mál.