Mánudagur 27. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 240. tbl. 16. árg.

Svonefnd fréttastofa RÚV reyndi í gær að sannfæra landsmenn um að það væri stjórnarskrármál hvort Jóhanna færi í bíltúr út á völl með Ólafi Ragnari. Allt myndi það lagast með nýrri stjórnarskrá! Hver lét fréttastofuna bera þetta á borð?
Svonefnd fréttastofa RÚV reyndi í gær að sannfæra landsmenn um að það væri stjórnarskrármál hvort Jóhanna færi í bíltúr út á völl með Ólafi Ragnari. Allt myndi það lagast með nýrri stjórnarskrá! Hver lét fréttastofuna bera þetta á borð?

Fyrr í mánuðinum birti Ríkisútvarpið hverja spunafréttina af annarri um þann sið að handhafar forsetavalds kveddu forseta Íslands á flugvelli og heilsuðu honum þar aftur, þegar forsetinn færi úr landi í opinberum erindagjörðum. Voru allar fréttirnar hinar furðulegustu því ekkert nýtt var í þeim og ekkert sem máli skipti. Það er engin regla sem skipar fyrir um slíka fylgd heldur er hún gömul venja.

En í gær kom kannski skýring á fréttunum. Að minnsta kosti birti Ríkisútvarpið nýja „frétt“ sem þessu tengdist og nú var spuninn alger.

Fréttamaður sló því upp, og tíðindin rötuðu meira að segja í yfirlit helstu frétta, að ef tillögur „stjórnlagaráðs“ að nýrri stjórnarskrá landsins yrðu samþykktar þá myndu handhafar ekki lengur fylgja forsetanum á flugvöll og að ekki yrði greitt fyrir handhafastörf. Þessum mikilvægu upplýsingum lauk svo á því að fréttamaður minnti á að kosið yrði um þessar tillögur þann 20. október næstkomandi.

Fréttamaðurinn hlýtur að upplýsa hver mataði hana á þessu og fékk hana til að bera á borð í fréttatíma. Spuninn er svo mikill að jafnvel fréttastofu Ríkisútvarpsins setur ofan við að láta nota sig með þessum hætti.

Það að handhafar forsetavalds fylgi forseta er ekki vegna einhverra fyrirmæla í gildandi stjórnarskrá. Það er ekki vegna einhverra lagaákvæða. Það er ekki vegna einhverra reglugerða. Það er ekki vegna einhverra erindisbréfa, minnismiða eða ósjálfráðrar skriftar. Þetta er bara venja sem menn fylgja og geta hætt hvenær sem er. Jóhanna fer bara ekki með, næst þegar Ólafur Ragnar fer utan. Það þarf ekkert að breyta stjórnarskránni og rjúfa þing til að breyta hér neinu. 

Sá sem ákvað að gerð skyldi frétt um að þetta fyrirkomulag, sem einhverjum áheyrendum þykir eflaust hljóma gamaldags, hyrfi með nýrri stjórnarskrá, var auðvitað ekki að hugsa um neitt annað en að reyna að setja hinar fráleitu tillögur „stjórnlagaráðs“ í jákvætt ljós. Menn gengu meira að segja svo langt að taka fram kjördag sem kosið yrði um tillögurnar – þótt Alþingi hafi raunar ekki enn ákveðið kjördaginn eins og lög bjóða, en það er önnur saga.

„Fréttin“ um að með breytingu á stjórnarskrá mætti  afnema fylgd forsetans var ekki frétt heldur grímulaus áróður fyrir tilteknu pólitísku málefni. Hún var fréttastofunni til skammar.