Helgarsprokið 26. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 239. tbl. 16. árg.

Katrín Jakobsdóttir er sár yfir því að almennir félagsmenn í VG telji það svik að flokkurinn hafi haft forgöngu um aðildarumsókn að ESB.
Katrín Jakobsdóttir er sár yfir því að almennir félagsmenn í VG telji það svik að flokkurinn hafi haft forgöngu um aðildarumsókn að ESB.

Forysta vinstrigrænna lét almenna félagsmenn sína heyra það um helgina. Enda áttu þeir það skilið. 

Þeir hafa nefnilega sært forystuna.

Eftir allt sem hún hefur lagt á sig.

Katrín Jakobsdóttir hélt setningarræðu á flokksráðsfundi vinstrigrænna og sagðist hafa orðið fyrir mjög sárum vonbrigðum með það að almennir flokksmenn hafi á kjörtímabilinu sakað flokksforystuna um svik. Það væru sárustu vonbrigði kjörtímabilsins.

Vinstrigrænir voru í síðustu kosningum eindregnir andstæðingar þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. Fjöldi fólks kaus vinstrigræna vegna þess að þeir virtust vera traustastur allra flokka í þessu máli. Framsókn farin á taugum og forysta þingflokks Sjálfstæðisflokksins sannfæringarlaus í Evrópumálum.

Um leið og búið var að telja upp úr kjörkössunum þá greiddu þingmenn vinstrigrænna, þessir sem segjast vera alveg á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið, atkvæði með því að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.

Fjölmargir óbreyttir flokksmenn, að ógleymdum þeim sem eru farnir úr flokknum, leyfa sér að kalla þetta svik. 

Það er því von að Katrín Jakobsdóttir sé sár. 

Og íslensk stjórnmálaumræða getur orðið svo vitlaus, þegar hún verður vitlausust, að Evrópusinnar eru nú farnir að kalla andstæðinga sína „einsmáls-menn“. Það er einhver ósanngjarnasti málflutningu sem hefur heyrst í óratíma.

Allir vita að í hefðbundnum samsteypustjórnum nær enginn flokkur öllu sínu fram. Menn semja þannig að allir samstarfsflokkarnir fái eitthvað, en enginn allt. Stuðningsmennirnir vita að þeir geta ekki verið vissir um að fá alla stefnuskrána leidda í lög á andartaki, jafnvel þótt flokkur þeirra komist í stjórn.

En aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki bara eitthvert mál. Það, að vilja að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki, er ekki bara eitt af stefnumálunum, svona eins og lækkun virðisaukaskatts á föt eða göng gegnum Hrafnseyrarheiði. Þeir sem vilja að landið sitt sé frjálst og fullvalda en ekki arða í risastóru ríkjabandalagi, þeir gefa það ekki eftir á tveimur vikum, bara af því að kratarnir vilja það.

Aðild að Evrópusambandinu er fullveldisafsal sem ekki yrði aftur tekið. Flokksforysta, sem gengur til kosninga með heitstrengingum um að vilja ekki ganga í Evrópusambandið, en sækir svo um aðild strax sama sumar, hún svíkur kjósendur sína í óafturkræfu risamáli.

Fram hjá því verður ekki komist með frösum og afneitun, jafnvel þótt viðfelldnasti fulltrúi forystunnar sé látinn fara með boðskapinn.

Vinstrigrænir sviku einfaldlega sitt fólk. Það er það sem flokkurinn gerði og situr uppi með í næstu kosningum. Og fólk veit líka núna, að fyrir kosningar var forystan ráðin í svikunum. Það breyttist ekki neitt frá apríl og fram í júní 2009. Vinstrigrænir hefðu alveg getað sagt fólki fyrir kosningar að þeir ætluðu að sækja um aðild að Evrópusambandinu í júní. En forystan gætti þess að kjósendur fengju ekki að vita neitt. 

Slík forysta ætti ekki að biðjast undan „svikabrigslum“.