Vefþjóðviljinn 230. tbl. 16. árg.
Ein stutt frétt og ekkert meira. Aldrei rifjað upp. Ætli það verði ekki þannig?
Frakkar fengu á dögunum nýjan utanríkisráðherra, sósíalistinn Laurent Fabius tók við embættinu í kjölfar sigurs sósíalistans Hollande í forsetakosningum. Hinn nýi utanríkisráðherra hefur nú kynnt sér ástand mála í Sýrlandi og hefur nú kynnt niðurstöðu sína: Assad á ekki skilið að lifa.
Ekki ætlar Vefþjóðviljinn nú að gerast málsvari Assads. En hvernig hefði verið látið ef bandarískur repúblikani hefði talað svo? Hvernig hefði evrópska intellígensían látið ef þeir félagar Bush og Cheney hefðu talað svona? Hversu lengi ætli ummælin yrðu rifjuð upp, með athugasemdum um villta vestrið og brjálaða menn í kúrekaleik. En þegar táknmynd intellígensíunnar, sósíalískur franskur ráðherra, telur mann ekki eiga skilið að fá að lifa, þá finnst engum neitt. Ekki nokkur maður mun skrifa um það að franskir sósíalistar séu óðir æsingamenn.
Evrópskir vinstrimenn horfa yfirleitt með hryllingi til Bandaríkjanna. Einkum þó til bandarískra repúblikana, en um þá ímynda þér sér allskyns hrylling. Evrópskir vinstrimenn geta skemmt sér heilu dagana við að sanna fyrir sjálfum sér að bandarískir repúblikanar séu stríðsóðir hálfvitar, allir á launum hjá hergagnaframleiðendum og hafi jafnvel lesið Biblíuna.
Evrópskir vinstrimenn halda í raun og veru að bandaríska vinstriblaðið New York Times sé besta heimildin um bandarísk málefni. Það blað hefur í sextíu ár stutt hvern einasta forsetaframbjóðanda demókrata. Í almennum kosningum er stuðningur þess við frambjóðendur demókrata yfirgnæfandi. Þegar repúblikanar sitja í Hvíta húsinu finnur New York Times að flestu eða öllu sem stjórnvöld gera í utanríkismálum. Stendur yfirleitt með andstæðingum Bandaríkjanna, sé þess nokkur kostur. Evrópskir vinstrimenn kalla New York Times aldrei annað en „stórblaðið New York Times“.
Það er kannski svo í stíl við þetta, að þegar íslenskir fjölmiðlamenn vilja kynna sér bresk málefni, þá er það vinstrablaðið Guardian sem verður fyrir valinu, enda komast menn varla lengra til vinstri á dagblaðamarkaðnum þar úti. Hversu sem lestur Breta á blaðinu minnkar, eykst lestur íslenskra fjölmiðlamanna á því. Sennilega halda þeir að þetta sé yfirvegað miðjublað. Eins og þeir halda margir að þeir sjálfir séu hlutlausir og sanngjarnir.