Laugardagur 18. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 231. tbl. 16. árg.

Um þessar mundir eru þrjú ár liðin frá því íslensk stjórnvöld ákváðu að sækja um aðild að ESB. Á sömu júlídögum 2009 gerði Capacent-Gallup viðhorfskönnun fyrir Andríki sem sýndi mun fleiri andvíga en fylgjandi aðild. Aðeins reyndust tæp 35% landsmanna fylgjandi aðild á sama tíma og ríkisstjórn Samfylkingar og VG gerði umsókn um aðild að sínu helsta máli.

Þetta var fyrsta könnunin frá bankahruninu sem sýndi þessa niðurstöðu. Síðan hafa allar kannanir þar sem spurt er beint um aðild sýnt þessa sömu niðurstöðu, mun fleiri eru andvígir en fylgjandi aðild.

Fleiri kannanir hafa verið gerðar en birtar á þessum þremur árum en af einhverjum ástæðum hafa menn ekki verið áfram um að birta þær allar.

Vafalítið var evran ein helsta ástæða þess að Íslendingar virtust samkvæmt könnunum vilja aðild að ESB fyrstu mánuðina eftir bankahrunið og fall krónunnar. MMR spurði um það efni fyrir Andríki í janúar á þessu ári. Þar kom í ljós að aðeins 28% aðspurða voru því fylgjandi að taka upp evruna en 52% því andvíg.

Síðan hefur ekki verið spurt um áhuga Íslendinga á evrunni nema niðurstöðunum hafi verið haldið leyndum. Getur verið að áhugamenn um aðild Íslands að ESB og evrunni, sem njóta hárra ríkisstyrkja til baráttu sinnar, hafi ekki látið kanna þetta?