Fimmtudagur 16. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 229. tbl. 16. árg.

Stefán Ólafsson prófessor hefur oft nefnt íslenskt efnahagslíf árin fyrir 2008 „bóluhagkerfi“ enda jókst landsframleiðsla hratt á árunum 2004 – 2007, eða um 6,4% á ári að meðaltali.

Ef frjálshyggja hefði einkennt stjórn ríkisins á þessu tímabili hefði hlutur hins opinbera í landsframleiðslunni fallið hratt. Þá hefði vöxtur hins opinbera auðvitað ekki haldið í við „bóluna“. En það var þó einmitt það sem hann gerði. Hjá hinu opinbera varð engu minni bóla. Hið opinbera þandist jafn hratt út og hin lánsfjárdrifna bóla á almennum markaði. Á hinu alræmda bóluári 2007 voru útgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu 42,3% sem er nærri meðaltali áranna 17 þar á undan. Árið 2007 voru opinberu útgjöldin hærra hlutfall af landsframleiðslu en árið 1990, á síðasta heila ári Skattmanns í fjármálaráðuneytinu! Hrein sprenging varð einnig í tekjum ríkisins á þessum tíma, rétt eins og Stefán hefur oft bent á í greinum um aukna skattbyrði á árunum fyrir hrun.

Stefán Ólafsson telur hins vegar að þessi bóluvöxtur hins opinbera og aukin skattbyrði á árunum fyrir hrun sé allt til marks um frjálshyggju. Um það skrifar hann pistil á Eyjunni í gær og segir svo:

Það er því enginn fótur fyrir tali um að ríkið hafi þanist óeðlilega mikið út fyrir hrun. Enginn. 

Já ætli ríkið hafi ekki bara þanist eðlilega mikið út á mælikvarða prófessorsins? Hér viðurkennir Stefán auðvitað að hið opinbera hafi þanist „mikið“ út á árunum fyrir hrun. Á hans mælikvarða var þessi mikla útþensla hins vegar eðlileg sem getur alveg passað fyrir jafn harðan vinstrimann og hann er.

Andríki hefur á liðnum misserum birt nokkur skilaboð í blaðaauglýsingum um þróunina á árunum fyrir hrun. Þau fylgja hér að neðan.