Miðvikudagur 15. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 228. tbl. 16. árg.

Það er ástæða til að vera á verði þegar einhver leggur til að í íslenskri löggjöf verði farin leið sem kennd er við eitthvert eitt land. Förum „sænsku leiðina“. Innleiðum „austurrísku leiðina“, er þá gjarnan þulið í sífellu. Skýringin á því að leiðin er kennd við eitt tiltekið land er gjarnan sú, að einungis í einu landi veraldar hafi ákafamönnum tekist að fá tiltekið atriði lögleitt, í öðrum löndum hafi menn hins vegar kosið að gera það ekki, en upphafsmennirnir séu í ákefð að reyna að fá aðra með sér, því þeim þyki óþægilegt að vera einir á báti.

Þetta þarf þó ekki að vera algild regla. Fram til ársins 2002 var svissneska leiðin í málefnum Sameinuðu þjóðanna til dæmis sú rétta.

Nú herma fréttir að rannsóknir sýni að hin svokallaða „sænska leið“ í vændismálum, að gera kaup á vændi refsiverð, hafi reynst illa. Ofbeldi hafi aukist, vændisseljendur geti ekki lengur leitað til lögreglu ef illa fer, glæpahópar hafi yfirtekið vændismarkaðinn og framboð á vændi í raun aukist. Að vísu munu niðurstöðurnar hafa birst í skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna en það þarf ekki að þýða að þær séu rangar.

Á Íslandi var knúið í gegn að farin skyldi „sænska leiðin“. Enginn þarf samt að láta sér detta í hug að þar verði snúið til baka, þótt niðurstöður rannsókna sýni, það sem allir máttu sjá fyrir, að slík leið geri ástandið mun verra en það var áður.

Ríkisútvarpið talaði við prófessor sem taldi ekki rétt að snúa til baka því fyrst þyrfti að gera miklar úttektir á ástandi mála hér. Ekki væri búið að kortleggja vændismarkaðinn og því væri ekkert vit að breyta lögum nú. Því miður hamlaði slíkur skortur á rannsóknum ekki því að „sænska leiðin“ yrði farin hér fyrir örfáum árum, því nú eru menn sem sagt fastir í henni þar til viðeigandi rannsóknir hafa verið gerðar.  En varla mun standa á mönnum að gera þær rannsóknir, það þarf bara að boða vændiskaupendur og seljendur í viðtöl, skipta þeim í rýnihópa og láta þá fylla út spurningalista.

Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum vildi auðvitað ólm halda í sænsku leiðina hér á landi. Það eina sem hér vantaði væri aukin harka lögreglunnar í þessum málum. Í viðtali minntist hún auk þess sérstaklega á dóm í svonefndu Catalinu-máli.

Sá dómur var athyglisverður fyrir margt. Þar báru vændiskonur vitni og sögðu frá starfi sínu. Vefþjóðviljinn hefur áður minnst á að þar kom ýmislegt fram sem sjaldan er nefnt í ítrekuðum þáttaröðum Ríkisútvarpsins um vændi og mansal. 

„Vitnið kvaðst hafa þénað meira en milljón þennan mánuð sem hún vann fyrir ákærðu á árinu 2008.“

„Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa verið neydd til að stunda vændi heldur hefði hún gert það af fúsum og frjálsum vilja. Áður en vitnið fór að vinna fyrir ákærðu, hefði hún stundað vændi á eigin vegum á […].“

„Vitnið kvaðst ekki hafa stundað vændi fyrr en hún kom hingað til lands. Þá kvaðst hún enn stunda vændi hér á landi. Útskýrði hún muninn á því að stunda vændi fyrir ákærðu annars vegar og hins vegar fyrir sjálfa sig, á þann veg að í seinna tilvikinu nyti hún allra peninganna sjálf.“ 

En eins og Vefþjóðviljinn hefur áður sagt þá er hann enginn áhugamaður um að fólk stundi vændi. Vel gæti hann trúað því að margir þeirra, sem það gera, gætu hugsað sér að starfa við eitthvað annað. Það er hins vegar nauðsynlegt að minna á, að fólk hefur ólíkt gildismat og menn eiga að fara varlega í að banna öðru fólki að taka ákvarðanir um eigið líf.

En það á að taka af fyllstu hörku á því fólki sem neyðir aðra til að stunda vændi.