Þriðjudagur 14. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 227. tbl. 16. árg.

Guðlaugur Þór hefur eðlilegar áhyggjur af mögulegri 115 milljarða ríkisábyrgð vegna ESB en greiddi ekki atkvæði gegn 647 milljarða ríkisábyrgð vegna Icesave.
Guðlaugur Þór hefur eðlilegar áhyggjur af mögulegri 115 milljarða ríkisábyrgð vegna ESB en greiddi ekki atkvæði gegn 647 milljarða ríkisábyrgð vegna Icesave.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður vakti á því athygli um liðna helgi að væru Íslendingar aðilar að Evrópusambandinu og evrunni fylgdi því ábyrgð á björgunarsjóðum sambandsins. Samkvæmt útreikningum Guðlaugs væri þessi ábyrgð um 115 milljarðar króna.

Þetta er gagnleg ábending hjá þingmanninum og um leið áminning um hvaða freistingar fylgja því þegar ríki vita að hversu illa sem þau hagi fjármálum sínum bíði þeirra í versta falli öryggisnet á kostnað annarra þjóða.

Líkt og tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um ríkisábyrgðir á Icesave hafa leitt í ljós eru Íslendingar ekki mjög áfjáðir í að taka ábyrgð á skuldum annarra, jafnvel þótt allt bendi til að ekki reyni á ábyrgðina nema að hluta.

Í vor voru birtir úteikningar sem sýndu að hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslunni í apríl 2011 væri kostnaður Íslands þegar orðinn 50 milljarðar króna og stefndi í 80 milljarða króna. Alls var ábyrgð íslenska ríkisins ótakmörkuð upp að 647 milljörðum auk vaxta.

Þótt síðasti Icesave samningur væri þannig um ábyrgð Íslendinga á margfalt hærri fjárhæðum en fylgir björgunarsjóði Evrópusambandsins greiddi Guðlaugur Þór Þórðarson ekki atkvæði gegn Icesave samningnum á alþingi.