Mánudagur 13. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 226. tbl. 16. árg.

Verslunarmiðstöðin Kringlan á 25 ára afmæli í dag. Vinstrimenn voru auðvitað alveg á móti því að hún yrði reist. Þeir hafa löngum viljað ráðskast með það hvar fólk fær að versla og hvenær. 

Þeir voru ekki bara á móti Kringlunni. Þeir vildu ekki að búðir fengju að vera opnar nema á ákveðnum tímum. Fólk átti bara að mega versla í búðum á þeim tíma sem stjórnmálamönnum fannst eðlilegt. Samkeppni væri „dýr og almennt til leiðinda“. 

Það er í fullri alvöru sem vinstrimenn tala gegn frjálsum viðskiptum. Nú þora þeir ekki lengur að berjast gegn því að fólk fái að versla á þeim tímum sem borgarinn og kaupmaðurinn verða ásáttir um. En vinstrimennirnir finna sér í staðinn alls kyns aðrar leiðir til að skerða viðskiptafrelsi fólks. Þeir telja nefnilega að viðskiptafrelsið sé ekki meðal neinna grundvallarréttinda sem ekki megi skerða. Þeir sjá ekkert að því að takmarka frelsi fólks til að ráðstafa eigin málum með samningum sín á milli. Og ef þeim líkar ekki þjónusta sem einhver vill selja og annar kaupa, þá vilja þeir hiklaust beita hinu opinbera til að banna starfsemina.

Vinstrimenn voru alveg á móti afmælisbarni dagsins, Kringlunni. En sumir þeirra hafa haft minni áhyggjur af öðrum afmælisbörnum. Berlínarmúrinn átti líka afmæli þennan dag. Íslenskir vinstrimenn sáu margir hverjir fátt athugavert við stjórnarfar í Austur-Þýskalandi. Þar leystu menn vandamálið með opnunartíma verslana með því að hafa ekkert í búðunum.