Helgarsprokið 12. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 225. tbl. 16. árg.

Jón Sigurðsson, sem um skeið var formaður Framsóknarflokksins, skrifaði nýlega grein sem hampað var á vefsíðum Samfylkingarmanna. Þar ræddi hann um stöðu Framsóknarflokksins og taldi sig greinilega geta kennt núverandi forystu ýmislegt um hana.

Grein Jóns var umsvifalaust hampað á Samfylkingarsinnuðum vefsíðum, svo Jón náði að minnsta kosti þeim árangri að skemmta einhverjum með skrifum sínum. Menn geta líka alltaf uppskorið hrós andstæðinganna með því gagnrýna eigin samherja.

Jón horfir skiljanlega með eftirsjá til þess tíma þegar Framsóknarflokkurinn naut almennt 18-24% fylgi, eins og hann segir sjálfur. Hann rekur hnignun flokksins til þjóðfélagsbreytinga þegar fólk flutti af landsbyggð til höfuðborgarsvæðis og mikilvægi landbúnaðar minnkaði í huga landsmanna.

Að vissu leyti er rétt að þessar breytingar eiga þátt í fylgislækkun Framsóknarflokksins. En það er ekki fyrst og vegna breytinganna heldur viðbragða þáverandi forystumanna flokksins við þeim.

Þáverandi forystumenn Framsóknarflokksins trúðu eða létu telja sér trú um að þær kölluðu á breytingar á flokknum og áherslumálum hans. Þeir virtust halda að stuðningsmenn flokksins hefðu skipt um stjórnmálaskoðun við að flytja í bæinn. 

Skyndilega fór Framsóknarflokkurinn í örvæntingu að reyna að höfða til annarra en framsóknarmanna. Versta tilraunin var auðvitað þegar menn byrjuðu á ljá máls á Evrópusambandsaðild – sem var fullkominn misskilningur af þeirra hálfu, hvað svo sem mönnum finnst um Evrópusambandið. Þeir kjósendur sem á annað borð láta stuðning sinn við inngöngu í Evrópusambandið ráða atkvæði sínu, munu aldrei kjósa Framsóknarflokkinn, hvað svo sem hann lofar að svíkja af grunnstefnumálum sínum fyrir þá.

Annað sem forysta Framsóknarflokksins gerði var að hún missti allt sjálfstraust. Hún var ekki umvafin já-mönnum, eins og stundum er sagt, heldur nei-mönnum. Hún sannfærðist um það að hún væri svo óvinsæl fyrir að vera í löngu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, að hún tók að afsaka sig fram og til baka. Við hverri gagnrýni brást hún með því að segjast þurfa að fara í stranga naflaskoðun. 

Eigi Sjálfstæðisflokkurinn í samstarfi við annan flokk, reyna andstæðingarnir jafnan að reka fleyg þar á milli með kalla hinn flokkinn „hækju“ Sjálfstæðisflokksins. Þannig er höfðað til minnimáttarkenndar minni flokksins, en virkjuð minnimáttarkennd getur verið afar eyðileggjandi afl. Árin 1991-1995 fengu Alþýðuflokksmenn stöðugt að heyra hækjuhugtakið, en árið 1995 byrjaði það að hljóma í eyrum framsóknarmanna.  

Í staðinn fyrir að hlæja að þeim sem kölluðu flokkinn hækju, byrjuðu framsóknarmenn í ofboði að reyna að vekja athygli á „sérstöðu“ sinni í stjórnarsamstarfinu. Afleiðingin varð auðvitað sú, sem andstæðingar flokksins vissu, að Framsóknarflokkurinn neitaði sér um margt þakklætið sem hann hefði getað fengið frá kjósendum vegna þessara ára. Þróun mála á Íslandi frá 1995 og næsta áratug á eftir var á ýmsan hátt jákvæð. Erlendar skuldir ríkisins voru allar greiddar niður, atvinnulíf blómstraði, kaupmáttur launa óx jafnt og þétt, frjálsræði borgaranna var aukið á ýmsan hátt og raunverulegur uppgangur var á flestum sviðum. Ekki innantómur bóluuppgangur heldur raunverulegur. Að sjálfsögðu var ýmislegt gert sem frjálshyggjumönnum líkaði miður – en þau mál voru ekki óvinsæl hjá þorra kjósenda. Fæðingarorlof, hert samkeppnislöggjöf, stóraukið eftirlit með fjármálastarfsemi, stórfelld aukning útgjalda til menntakerfis og svonefndra velferðarmála eru dæmi um mál sem voru ekki í anda frjálshyggju þessi ár.

Framsóknarflokkurinn hafði fulla ástæðu til að bera höfuðið hátt eftir stjórnarsetu sína. En þess í stað fór hann á fulla ferð í að biðjast afsökunar á sjálfum sér. Á endanum gátu kjósendur flokksins ekki annað en trúað samfelldum söng forystunnar um að flokkurinn væri ekki nógu góður. Fylgið minnkaði svo mikið að krötum tókst að koma flokknum frá völdum. Og taugaveiklun Framsóknarflokksins hélt áfram.

Á þremur árum náði hann að hafa fimm formenn, eða sex ef formannsmínútur Höskuldar eru taldar með. Frægt varð þegar efsti maður flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, valinn að vilja Samfylkingarmanna í Reykjavík því forveri hans hafði myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn, sagði í umræðuþætti kvöldið fyrir kosningar að stjórnarár Framsóknarflokksins hefðu verið „ömurlegir tímar“. Flokkurinn datt út úr borgarstjórn daginn eftir. Veturinn 2009 leiddu framsóknarmenn á þingi vinstristjórnina til valda og voru svo ákafir í að geðjast þeim sem líta niður á Framsóknarflokkinn að þeir tóku ekki einu sinni sæti í stjórninni sjálfir. Þeir framseldu bara vinstriflokkunum atkvæði sín á þingi. En þá þögnuðu skyndilega allir sem talað höfðu í tólf ár um „hækju“. Í fyrsta sinn sem Framsóknarflokkurinn var í raun hækja nokkurs.

Það var að vissu leyti í þessum anda sem Framsóknarflokkurinn kaus sér nýjan formann, næstum óskrifað blað í stjórnmálum. Sennilega hefðu framsóknarmenn ekki kosið hann ef þeir hefðu á niðurlægingar- og taugaveiklunarskeiðinu vitað að nýi formaðurinn er meiri alvörumaður en flestir þeir sem nú sitja á þingi. Enda leynir sér ekki persónuleg andúð vinstrimanna, einkum krata, á núverandi formanni Framsóknarflokksins. Það er skýrt merki um að sitthvað sé í mann spunnið ef vinstripennarnir hatast við hann. Vandamál Framsóknarflokksins nú eru ekki forysta hans, heldur miklu fremur það hversu örvæntingarandinn og trúnaðurinn á málflutning andstæðinganna er enn ríkur í sumum þingmönnum flokksins. Framsóknarflokkurinn stendur aldrei einhuga gegn verstu málum ríkisstjórnarinnar. Hvort sem það er innganga í Evrópusambandið, atlaga að stjórnarskránni, Icesave, landsdómur gegn Geir Haarde eða hvað sem er annað, þá eru alltaf nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins sem munu leggja ríkisstjórninni lið. 

Vandamál Framsóknarflokksins eru ekki þau að hann fylgi eigin stefnu en ekki annarra í Evrópusambandsmálum. Vandamál Framsóknarflokksins eru mun fremur að hann kannast ekki við það sem hann hefur þó gert gott, og einstakir þingmenn hans styðja gjarnan verstu mál ríkisstjórnarinnar.