Laugardagur 11. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 224. tbl. 16. árg.

AMX-grafið sem sýna átti sláandi og alvarlegar talnabrellur Stefáns Ólafssonar. AMX hélt að árið 2007 væri 2008, sem eru auðvitað tvö tíðindalítil ár í sögu landsmanna og auðvelt að rugla saman.
AMX-grafið sem sýna átti sláandi og alvarlegar talnabrellur Stefáns Ólafssonar. AMX hélt að árið 2007 væri 2008, sem eru auðvitað tvö tíðindalítil ár í sögu landsmanna og auðvelt að rugla saman.

Undir kvöld á fimmtudaginn, er kenningar fræðimanna gera ráð fyrir að um 37% landsmanna hafi verið að snúa sér að því að grilla, birti fréttamiðstöðin AMX ádeilu á Andríki og spurði hvort félagið ætlaði jafnvel að hefja sölu á bókum Stefáns Ólafssonar í bóksölu sinni.

Rótin að þessum skrifum var að AMX hafði í síðustu viku haft stór orð um túlkun Stefáns Ólafssonar á gögnum hagstofunnar um tekjumun. „Falsaði Stefán Ólafsson graf um jöfnuð?“, sagði AMX í fyrirsögn og svaraði þeirri spurningu svo með því að nýjustu dæmin um „talnabrellur“ Stefáns væru „sláandi og alvarleg.“ 

AMX misskildi hins vegar gögn hagstofunnar.

Á þennan misskilning leyfði Vefþjóðviljinn sér að benda um liðna helgi.

Um misskilninginn hefur AMX ekkert að segja en leggur til að Bóksala Andríkis taki til sölu bækur mannsins sem helst hefur kvartað undan aukinni skattbyrði landsmanna. Það hlýtur að koma til greina þegar bóksalan býður nú þegar upp á bækur eftir mann sem studdi setningu laga um takmarkanir á eignarhaldi einstaklinga á fjölmiðlum.