Miðvikudagur 25. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 207. tbl. 16. árg.

Þá er komið að hinni árvissu spurningu: Hvenær verður bótaþegalisti ríkisins birtur opinberlega?

Nú eru fréttamenn andstuttir af ákefð að lesa upp hverjir greiði hæsta skatta á landinu. Enn síðri menn gera út fólk með fartölvur á skrifstofur skattsins til að reikna upp úr álagningarskránum og gera sjálfum sér útreikningana að féþúfu. Eftir örfáa daga í mesta lagi birtast „tekjublöðin“ á sölustöðunum, með alla misgáfulegu útreikningana, og árvissu kaupendurnir standa í röð, búnir að æfa réttlátu reiðina.

Hvers vegna er verið að birta þessar upplýsingar? 

Tvær ástæður eru yfirleitt nefndar, þegar skráargatsmenn þurfa að rökstyðja útgáfuna.

Önnur er að ríkissjóður sé „sameiginlegur sjóður okkar“ og „við“ eigum því rétt á að vita hvaðan peningar í hann komi.

Hin er sú að birting upplýsinga úr álagningarskrám hindri menn í skattsvikum. Menn þori ekki að gefa upp tekjur sem allir sjái að séu í engu samræmi við risajeppana og hátæknieldhúsin hjá greifunum.

Ef menn skoða nú þessar röksemdir þá blasir við að þær kalla ekki síður á birtingu bótaþegaskránna.

Ef ríkissjóður er sameiginlegur sjóður allra Íslendinga og þeir eiga þess vegna rétt á upplýsingum um hvaðan tekjur í hann koma, þá eiga þau rök eins við um útgjöld úr sjóðnum. Ef menn eiga rétt á upplýsingum um hver borgar tvær milljónir í tekjuskatt á ári, þá eiga þeir sama rétt á að vita hver fær tvær milljónir í atvinnuleysisbætur á ári.

Og svo er það aðhaldshlutverk birtingarinnar. Ætli það væri ekki enn meira með birtingu bótaþegaskrárinnar? Ætli menn myndu ekki hika við að þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma og þeir vinna „svart“ á næsta verkstæði, ef þeir vissu að atvinnuleysisbótaþegaskráin yrði birt? 

En geymir bótaþegaskráin ekki svo viðkvæmar persónuupplýsingar? 

Hverjum finnst það? Er viðkvæmt mál að þiggja bætur? Sá sem býr raunverulega við slæmar aðstæður og þiggur þess vegna þær bætur sem honum eru boðnar, á hann að þurfa að skammast sín fyrir það? Hvaða skilaboð eru það til bótaþega? Er ekki einmitt verið að niðurlægja fólk með því að segja því, að með því að þiggja bætur hafi það gert eitthvað sem ætti að vera því feimnismál?

Birting bótaþegaskrár væri síst óeðlilegri en óheftur aðgangur að álagningarskrám. Svo lengi sem sá ógeðfelldi aðgangur er veittur verður því spurt: Hvenær verður bótaþegalisti ríkisins birtur?