Fimmtudagur 26. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 208. tbl. 16. árg.

Matt Ridley.
Matt Ridley.

Ný hugmyndaveita að nafni Rannsóknasetur um nýsköpun og hagvöxt efnir til fundar á morgun með breska rithöfundinum Matt Ridley. Ridley var vísindaritstjóri The Economist um árabil og skrifar reglulega um vísindaleg álitaefni í The Wall Street Journal

Ridley hefur ritað nokkrar áhugaverðar og umtalaðar bækur undarna tvo áratugi. Sú nýjasta sem kom út fyrir tveimur árum ber heitir The Rational Optimist: How Prosperity Evolves. Þar tekur Ridley til skoðunar hið undarlega fyrirbæri sem John Stuart Mill lýsti svo :

I have observed that not the man who hopes when other despair, but the men who despairs when others hope, is admired by a large class of persons as a sage.

Ridley rekur í bókinni hvernig flest hafi verið mannkyni í haginn undanfarin tvöhundruð ár. Allur kostur þorrans hafi snarbatnað, fæða, húsanæði, ný tæki og tækni, lyf og  læknishjálp. Þetta hefur skilað sér í mikilli fólksfjölgun og lengri ævi. 

Vafalítið mun Ridley nefna ýmis dæmi um þetta í fyrirlesti sínum, líkt og hann gerir á skemmtilegan hátt í bók sinni.

Og jafnvel geta sér til um hvernig stendur á því að bölmóður og heimsslitaspár eiga svo greiðan aðgang að fólki.

Í bókinni sýnir hann hvernig flest lífgæði hafi snarlækkað í verði fyrir fjöldann. Eitt hefur þó ekki lækkað eins skarpt og vænta mætti en það er húsnæði. Ridley telur að það skýrist af ýmsum afskiptum hins opinbera af húsnæðismálum. Annars vegar stýri hið opinbera skipulagsmálum og skammti land til bygginga. Hins vegar hvetji það skuldsetningar við íbúðakaup með því að niðurgreiða vaxtakostnað. Hvort tveggja leiði til hærra íbúðaverðs. Þegar húsnæðisbólur springi geri hið opinbera svo sitt til að koma í veg fyrir verðlækkun, jafnvel þótt afskipti þess af húsnæðismálum séu í upphafi réttlætt með því að þannig megi auðvelda fólki að eignast húsnæði.

Matt Ridley flytur fyrirlestur sinn í Öskju, stofu N-132, í Háskóla Íslands föstudaginn 27. júlí 2012 kl. 17.30–19.00. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands stendur einnig að fyrirlestrinum.