Mánudagur 23. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 205. tbl. 16. árg.

Í gær ræddi Vefþjóðviljinn um hið furðulega mál þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins taldi alls ekki fréttnæmt að forseti Íslands bæri fréttastofuna og nafngreindan fréttamann þungum sökum opinberlega. Eins og rakið var þá var augljóslega stórfrétt á ferðum, en fréttastofan þagði.

Þótt liðnir séu tveir mánuðir og forsetakosningar afstaðnar, þá hefði málið enn töluvert fréttagildi. Það snýst nefnilega um það að annað hvort fór forseti Íslands opinberlega með rangar ásakanir eða fréttastofa ríkisins var misnotuð og það án þess að nokkur viðbrögð komi frá henni þegar bent er á það. 

Þess vegna ætti fréttastofan að fjalla um þetta mál, jafnvel nú. Ríkisútvarpið ætti að gera um það vandaða fréttaskýringu. Hún ætti að vera svona:

• Það á að spila í heild ásakanir forseta Íslands á hendur Ríkisútvarpinu og þeim fréttamanni sem í hlut á, manni Þóru Arnórsdóttur.

• Það á að sýna í heild þær fréttir sem fréttamaðurinn vann um forsetakosningar og taka fram hvenær þær voru sendar út. Einnig á að taka fram hver var vaktstjóri á hverjum tíma.

• Taka þarf fram hvenær maki fréttamannsins var orðaður opinberlega við forsetaframboð og samþykkti að nafn hans yrði með í skoðanakönnun um forsetaefni.

• Sé í fréttunum vísað til orða forsetans í nýársávarpi, þá á að sýna þau orð í heild, auk þess sem ávarpið í heild á að vera aðgengilegt á vefsíðu Ríkisútvarpsins.

• Upplýsa á nákvæmlega hvenær var sagt frá ásökunum forsetans í fréttum Ríkisútvarpsins.

• Leita á skýrra svara forsetans um hvort hann standi við ásakanirnar eða hvort hann dragi þær til baka. Neiti forsetinn að svara þá á að upplýsa um það.

• Leita á skýrra svara fréttastjóra við því hvers vegna ekki hafi verið sagt frá ásökununum fyrr. Einnig hvort einstakir fréttamenn hafi staðið eðlilega að málum eða ekki.  Leita á skýrra svara útvarpsstjóra hvort hann telji fréttastofuna hafa staðið rétt að málum. Sérstaklega á að spyrja útvarpsstjóra um hvort Ríkisútvarpinu hafi borið að segja fyrr frá ásökunum forsetans.

Eftir þetta ættu áhorfendur sjálfir að geta lagt mat á málið. Hefur forsetinn rétt fyrir sér og Ríkisútvarpið var misnotað? Fór forsetinn með ósannindi og rægði saklausan starfsmann, í baráttu sinni við konu hans?