Helgarsprokið 22. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 204. tbl. 16. árg.

Fílabeinsturninn. Þar er hvorki sagt frá alvarlegum ásökunum um hlutdrægni fréttastofu Ríkisútvarpsins né þeim svarað.
Fílabeinsturninn. Þar er hvorki sagt frá alvarlegum ásökunum um hlutdrægni fréttastofu Ríkisútvarpsins né þeim svarað.

Þóra Arnórsdóttir fyrrverandi forsetaframbjóðandi var í löngu viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins

Meðal þess sem hún nefndi var það sem hún kallaði ótrúlegar árásir Ólafs Ragnars Grímssonar á mann hennar, en eins og menn muna sakaði Ólafur Ragnar hann um að hafa misnotað aðstöðu sína hjá Ríkisútvarpinu til að koma höggi á forsetann. Um viðbrögð Ríkisútvarpsins við ásökunum forsetans sagði Þóra:

Og viðbrögðin hjá RÚV þegar forseti lýðveldisins sakaði stofnunina um misnotkun og starfsmenn um óheilindi – öh ekki svaravert. Mér fannst það lélegt og undarlegt að stofnunin skyldi ekki bregðast við.

Hér nefnir Þóra mál sem sjálfsagt er að rifja upp svo það gleymist ekki. Það segir nefnilega töluverða sögu um Ríkisútvarpið og þær skyldur sem það í raun telur sig hafa við hlustendur og áhorfendur.

Og það alvarlegasta í málinu var ekki það að Ríkisútvarpið skyldi ekki svara ásökunum forsetans. 

Það sem gerðist var í stuttu máli það, að forseti Íslands bar íslenska ríkisútvarpið opinberlega þungum sökum og sagði starfsmenn þess hafa misnotað aðstöðu sína til að styðja einn mótframbjóðanda forsetans. 

Slíkar ásakanir eru grafalvarlegar á hendur ríkisútvarpi. Og þegar það bætist við að sá sem ber ásakanirnar fram er þjóðhöfðingi landsins þá er mjög alvarlegt mál á ferðinni. Ef ásakanirnar eru réttar, þá er málið grafalvarlegt fyrir ríkisfjölmiðilinn. Ekki væri síður alvarlegt ef forseti Íslands yrði ber af því að bera opinberlega rangar sakir á menn. Málið var því augljóslega mjög alvarlegt, hvað sem rétt væri í ásökunum forsetans.

Og hvað gerði Ríkisútvarpið? Eitt er nú að það hafi talið ásakanirnar ekki svaraverðar, eins og Þóra segir og finnst mjög lélegt. En Ríkisútvarpið lét sér ekki nægja að svara ekki ásökunum. Ríkisútvarpið sagði hreinlega ekki frá þeim. 

Fréttastofa Ríkisútvarpsins ákvað hreinlega að segja áheyrendum sínum ekki frá því að forseti Íslands hefði opinberlega borið starfsmenn Ríkisútvarpsins þungum sökum. Þeir landsmenn sem ekki fylgdust með öðrum fjölmiðlum þessa daga, hafa aldrei heyrt af því að forsetinn hafi borið fram þessar ásakanir.

Getur nokkrum manni þótt sem þessar ásakanir forsetans á hendur Ríkisútvarpinu séu ekki fréttnæmar? Hvað sem mönnum finnst um forsetann og um Ríkisútvarpið, þá hljóta þeir að sjá að slíkar ásakanir forseta á hendur ríkisútvarpi landsins eru stórfrétt. 

Ef menn eru sammála um að allir skynsamir menn sjái að þessar ásakanir forsetans voru stórfrétt, hvaða sögu segir það þá um stjórnendur fréttastofu Ríkisútvarpsins að þeir segi ekki frá ásökununum?

Tvær ástæður geta komið til greina, því vitað er Ríkisútvarpinu var kunnugt um orð forsetans.

Annar möguleikinn er að stjórnendum fréttastofunnar hafi bara alls ekki þótt fréttnæmt að þjóðhöfðinginn beri fram slíkar ásakanir á ríkisfréttastofuna. Ef sú er raunin þá er það til marks og einstaklega lítinn skilning á því hvað er fréttnæmt og hvað ekki. 

Hinn möguleikinn er sá að þeir hafi viljað að sem fæstir hlustendur fengju að vita um þessar ásakanir.

Að minnsta kosti er ljóst, að yfirmönnum fréttastofunnar fannst þeir ekki hafa neina skyldu til að láta hlustendur vita um þessar ásakanir forsetans. Það segir mikla sögu um þær skyldur sem þeir í raun telja sig bera við hlustendur sína.

Það er fagnaðarefni að Þóra Arnórsdóttir hafi rifjað þetta upp. Þetta er mál sem stjórnendur fréttastofu Ríkisútvarpsins eiga ekki skilið að gleymist.