Helgarsprokið 15. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 197. tbl. 16. árg.

Það eru ekki allir sammála því að skella megi skuldinni af efnahagsvanda Vesturlanda á frjálsan markað. Þeir eru nokkrir sem trúa því vart að auka þurfi ýmis ríkisafskipti til að koma í veg fyrir að stórhuga menn frá Álftanesi til Aþenu ani út í skuldafen að nýju.

Í gær vísaði Vefþjóðviljinn á viðtal við skoska sagnfræðinginn Niall Ferguson þar sem hann dregur mjög í efa að hægt sé að koma í veg fyrir óábyrga hegðun bankamanna með því að bæta nokkur hundruð blaðsíðum af reglum við þær mörg þúsund síður sem fyrir eru. Hann telur þvert á móti að of stórt regluverk geti aukið vandann.

Hér að neðan er kynningarstubbur fyrir nýja heimildarmynd um ástæður efnahagsvandræðanna sem Vesturlönd hafa glímt við undanfarin ár. Þar er meðal annars rætt við spænska hagfræðiprófessorinn Jesús Huerta de Soto sem Vefþjóðviljinn hefur vitnað tíðum til.

Í þessari ágætu mynd segja menn einfaldlega að núverandi stjórn peningamála sé sósíalismi. Og eru það nokkrar ýkjur þegar haft er í huga að ríki hafa hvarvetna seðlaprentunarvaldið, gefa tóninn með ákvörðunum sínum um stýrivexti, ryksuga skuldabréfamarkaði, prenta peninga fyrir gjaldþrota banka og ríkissjóði, tryggja innstæður, setja reglur og hafa eftirlit með fjármálastarfsemi?

Myndina í heild má sjá hér

Í hinni upplýsandi bók sinni Ábyrgðarkver pælir Gunnlaugur Jónsson eftir rótum fjármálakrísunnar. Menn þurfa ekki að lesa lengi þar til þessi myndarlegi, en mörgum ósýnilegi, njóli er rifinn upp með rótum (bls. 13):

Innistæðueigendur og lánardrottnar hljóta að vera áhugalausir um að gæta fjár síns ef þeir halda að hegðun bankans muni ekki snerta þá.

Ríkisábyrgð á innistæðum og skuldbindingum banka kemur í veg fyrir að innistæðueigendur og lánardrottnar veiti bönkum aðhald. Þeim er sama þótt bankar fari glannalega ef þeir búast við að fá allt sitt greitt frá ríkinu, þegar á reynir.

Og áfram segir Gunnlaugur (bls. 17)

Stundum fæst betri ávöxtun með meiri áhættu. Þegar ríkisábyrgð er á bönkum, munu þeir bankar sem taka mesta áhættu því stundum geta boðið hærri vexti en aðrir, án þess að viðskiptavinurinn telji sig taka meiri áhættu. Þannig soga áhættusamir bankar til sín fjármagn og hinir tapa í samkeppninni. Það verður jafnvel lífsnauðsynlegt fyrir banka að fara geyst.

Jamie Whyte hjá Cobden Centre ritaði grein í The Wall Street Journal í síðustu viku þar sem hann veltir því fyrir sér hvers vegna bankamenn í frelsi 19. aldar höguðu sér betur en starfsbræður þeirra í reglugerðafrumskóginum í byrjun 21. aldar. 

Megin niðurstaða Whytes er sú sama og Gunnlaugs. Bein og óbein ríkisábyrgð, ætluð og raunveruleg, dregur úr ábyrgð bankamanna. Þetta á auðvitað sérstaklega við um innstæðutryggingar sem ríkisvaldið þykist víða bjóða sparifjáreigendum. 

Innstæðueigendum stendur á sama um hvernig bankamenn haga sér því þeir hafa engan hag af því að fylgjast með þeim. Á meðan stjórnvöld segjast ábyrgjast hugsanlegt tap þeirra hafa þeir engan áhuga á því hvort bankinn hagar sér með ábyrgum hætti.

Er ekki alveg örugglega búið að afnema alla hugsanlega ábyrgð skattgreiðenda á innstæðum?