Laugardagur 14. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 196. tbl. 16. árg.

Helstu afleiðingar fjármálakreppu Vesturlanda undanfarin ár eru:

* Skattgreiðendur fengu reikning vegna bankanna sem fóru sér að voða.

* Skattgreiðendur bættu tap innstæðueigenda sem hlupu á eftir ótrúlegum vaxtakjörum.

* Skattgreiðendur leggja aukið fé í eftirlitsstofnanirnar sem talið var að hefðu brugðist.

Vefþjóðviljinn er raunar þeirrar skoðunar að eftirlitsstofnanir hafi starfað eins og við mátti búast. Ef stjórnendur banka geta ekki afstýrt strandi þeirra hvernig í ósköpunum eiga eftirlitsmenn, sem eru ekki um borð og fá allar upplýsingar síðar, að gera það?

Niall Ferguson sagfræðingur ræddi um þörfina á fleiri reglum og meira eftirliti í þættinum Hardtalk á BBC nýlega. Ferguson er þeirrar skoðunar að fjármálakreppan eigi fremur rætur í of miklum reglum en of litlum. Hann bendir á að kreppan eigi upptök sín á mörkuðum sem hafi verið undir ströngum reglum og miklu eftirliti, líkt og húsnæðislánamarkaðinum í Bandaríkjunum. 

Ferguson bendir á að í hinu flókna regluverki sé falin óskhyggja. Það sé óraunhæft að leggja mönnum þannig línurnar með reglum að þeir muni alltaf segja satt og gera rétt. Það muni jafnframt hafa lítil áhrif að setja reglur sem eiga að taka á ástæðum kreppunnar sem nú gengur yfir því næsta kreppa verði af öðrum ástæðum.