Mánudagur 16. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 198. tbl. 16. árg.

Undanfarna viku hefur Morgunblaðið vakið athygli á því að alþingi er að falla á tíma, ef það vill halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálefni þann 20. október næstkomandi. Samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur þarf alþingi að ákveða kjördag með þriggja mánaða fyrirvara og það hefur alþingi augljóslega ekki gert, þótt í þingsályktun segi að kosið skuli ekki síðar en 20. október. Enginn vafi er á því, að slíkt telst ekki ákvörðun um kjördag, eins og kveðið er á um í lögum. 

Viðbrögð stjórnvalda við þessari augljósu ábendingu hafa verið furðulega einstrengingsleg, þótt slíkt sé auðvitað í stíl Jóhönnu Sigurðardóttur sem hlustar ekki á rök og þiggur ekki leiðbeiningar í nokkru máli svo vitað sé. Stjórnvöld ætla ekkert að gera með þessar ábendingar heldur halda áfram eins og ekkert sé, þótt lögmæti kosningarinnar verði að engu. Stjórnvöldin, sem hunsuðu úrskurð Hæstaréttar sem réttilega ógilti meingallaða stjórnlagaþingskosningu, hafa greinilega sama áhuga nú á að fara eftir kosningalögum.

Hvers vegna ætli stjórnvöld láti svona? Hvers vegna ætli þau kalli ekki þingið saman og gangi frá þessu? Nú er þeim bent á þetta í tæka tíð, þegar enn er hægt að bregðast við. Það er ekki um það að ræða að menn hafi einfaldlega beðið fram yfir 20. júlí og komið þá og sagt ho ho ho, þið eruð orðin of sein.

Fyrir utan venjulega forherðingu Jóhönnu Sigurðardóttur þá koma tveir möguleikar sterklega til greina.

Í fyrsta lagi: Stjórnvöld vilja endilega fá galla á kosninguna sem fær stærsta hluta skynsamra manna til að sitja heima á kjördag. Þá mætir bara meinloku-fjórðungur þjóðarinnar, þessi sem taldi „þjóðfundinn“ stórmerkilegan, stjórnlagaþingskosninguna vel heppnaða og ógildingu Hæstaréttar á henni bara einhverja „lagatækni“. Ef þeir sem mæta á kjörstað eru fyrst og fremst úr meinloku-fjórðungnum, þá fær stjórnin þau úrslit sem hún vill og getur látið eins og „þjóðin“ hafi talað.

Í öðru lagi: Jafnvel innan stjórnarliðsins átta flestir sig á því að tillögur „stjórnlagaráðs“ eru ónothæft þvaður. Þeir sitja hins vegar uppi með það að margir af dyggustu áróðursmönnum sínum voru annað hvort í „stjórnlagaráði“, eru góðir vinir „stjórnlagaráðsmanna“ eða hafa tillögur þeirra á heilanum af öðrum ástæðum. Þessir stjórnarliðar, sem átta sig á þessu hvorutveggja, þurfa því að finna leið til að koma „frumvarpi stjórnlagaráðs“ út úr heiminum, en halda áfram stuðningi „stjórnlagaráðsfulltrúanna“ sem sumir halda raunverulega að vit sé í tillögum sínum.