Vefþjóðviljinn 189. tbl. 16. árg.
Gísli Freyr Valdórsson skrifaði pistil í Viðskiptablaðið í vikunni um óttann sem nagar Íslendinga við komuna heim til landsins. Flestir óttast að „lenda“ í tollinum eftir lendingu á flugbrautinni.
Það er auðvitað áhyggjuefni út af fyrir sig að geta lent að tilefnislausu í því að opinberir starfsmenn lesi sundur nærplögg og annað innihald í ferðatöskunni.
Meginástæða þess að menn „lenda í tollinum“ er ekki grunur um vopnasmygl eða innflutning á ólöglegum fíkniefnum heldur áhyggjur yfirvalda af því að ferðamenn flytji með sér varning sem er ódýrari annars staðar. Og ein helsta ástæða þess að hann er ódýrari annars staðar eru tollar, vörugjöld og einstaklega hár virðisaukaskattur sem lögð eru á vörur hér á landi.
Þessi gjöld vill íslenska ríkið heimta jafnt af þeim sem flytja vörur inn í gámum og ferðatöskum. En sérstaklega tollarnir eru dýrir í innheimtu, skila litlu og mismuna innflytjendum eftir því hvað og hvaðan þeir kaupa inn.
Gísli Freyr segir:
Það eru engin rök fyrir því að viðhalda tollum og vörugjöldum önnur en þau að ríkið vill hafa eitthvað um það að segja hvar og hvernig þú eyðir peningunum þínum og vill auðvitað fá sinn hluta líka. Á meðan þurfa íslenskir neytendur að greiða margfalt hærra verð fyrir nær allar vörur með sínum ónýta gjaldmiðli og í fangelsi gjaldeyrishafta.
Frelsið er lúxus og einhvern veginn virðumst við bara sætta okkur við þetta. Við höldum áfram að svitna við það eitt að labba í gegnum tollinn í þeirri von að ríkið refsi okkur ekki ef það kemst upp að við keyptum okkur eitthvað skemmtilegt í útlöndum.