Vefþjóðviljinn 188. tbl. 16. árg.
Þeir sem urðu andstæðingar núverandi forseta Íslands, er hann synjaði lögum um ríkisábyrgð á Icesave skuldum einkabanka staðfestingar, efndu til sjónvarpsútsendingar síðastliðið laugardagskvöld undir nafninu kosningaútsending Ríkissjónvarpsins. Meðal atriða á dagskránni var að fréttamaður Ríkisútvarpsins fór í Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins, og sagði svo frá því að þar hefðu stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar komið saman og fagnað gengi síns manns. Annar fréttamaður flissaði svo ákaflega yfir þessu ásamt æviráðnum kosningasérfræðingi ríkisstöðvarinnar og það sem eftir lifði nætur var ítrekað rifjað upp með texta neðst á skjánum: „Stuðningsmenn Ólafs Ragnars fagna í Valhöll.“
Þótt mikið væri hlegið að þessu í Efstaleiti, enda fátt annað sem menn gátu þar glaðst yfir þessa nótt, vakti fréttin víða furðu. Fréttamenn hafa síðan gætt þess að þegja um frásögn Björns Bjarnasonar sem birtist á síðu hans næsta þriðjudag, og er þó vitað að fréttamenn lesa síðuna vandlega. Björn segir:
Í dag hitti ég nokkra forráðamenn ungra sjálfstæðismanna. Ég spurði hvort þeir hefðu efnt til kosningavöku í Valhöll fyrir Ólaf Ragnar Grímsson eins og fram hefði komið í ríkisútvarpinu og vakið nokkra athygli. Þeir sögðu það af og frá. Menn hefðu komið saman í öðrum tilgangi í Valhöll en síðan fylgst með úrslitum kosninganna eins og aðrir hefðu víða gert. Það hefði verið sagt við starfsmann ríkisútvarpsins að til hófsins í Valhöll væri ekki stofnað til að fagna sigri Ólafs Ragnars þótt í hópnum væru kjósendur hans.
Óskiljanlegt er að ríkisútvarpið hafi kynnt þessa samkomu á þann hátt sem það gerði um kosninganóttina og enn óskiljanlegra að hún yrði Eiríki Guðmundssyni tilefni hins dæmalausa pistils sem hann flutti í upphafi þáttarins Víðsjár mánudaginn 2. júlí. Sannaði sá samsetningur enn einu sinni á hvern hátt Eiríkur misnotar þáttinn og aðstöðu sína sem einn stjórnenda hans til að flytja áróður gegn þeim sem hann hefur ekki í hávegum. Hefði Eiríkur birt texta sinn á prenti gætu þeir sem urðu fyrir barðinu á honum borið hönd fyrir höfuð sér á sama stað. Að hann flutti hann í Víðsjá gerir öðrum en þeim sem hann eða aðrir stjórnendur þáttarins bjóða í hann ókleift að svara á sama stað.
Ríkisútvarpið hefur farið illa út úr forsetakosningunum, líklega verst opinberra stofnana.
Ríkisútvarpið hættir seint að koma á óvart.