Vefþjóðviljinn 190. tbl. 16. árg.
Hvers vegna ætli ekki sé mikið um að menn reyni að kaupa og selja atkvæði í opinberum kosningum? Ekki vantar nú áhugann á kosningaúrslitum eða áhugann á því að verða sér út um auðfengið fé. Skýringin liggur auðvitað í augum uppi. Kaupandinn hefur enga tryggingu fyrir því að fá nokkurn tíma það sem hann kaupir. Kosningin er leynileg.
Sama ástæða er fyrir því að menn eru ekki beittir óleyfilegum þrýstingi um það hvernig þeir ráðstafa atkvæðisréttinum. Sá sem ætlar að þrýsta öðrum til að kjósa eitthvert framboðið, eða til að kjósa ekki eitthvern flokk, hefur enga tryggingu fyrir því að ógnunin nái tilgangi sínum. Kosningin er leynileg, kjósandinn er einn í kjörklefanum.
Til að kosningar séu frjálsar og fólk geti treyst niðurstöðunum eru nokkur grundvallaratriði sem þarf að hafa í heiðri. Það að kosning sé leynileg, er eitt af þeim mikilvægustu. Að allir þeir, sem una þurfa úrslitunum, geti treyst því að kjósendur hafi kosið í einrúmi án þess að óviðkomandi menn hafi getað horft yfir öxlina á þeim.
Eftir forsetakosningarnar hafa fréttamenn mikið rætt um óánægju samtaka fatlaðra með að fötluðum kjósendum leyfist ekki að taka með sér í kjörklefann sína aðstoðarmenn. Allur var sá fréttaflutningur á einn veg. Ráðherra kosningamála sendi frá sér yfirlýsingu sem vart varð skilin öðruvísi en ráðherrann bæðist afsökunar á að þora ekki að brjóta lögin, af ótta við að Hæstiréttur ógilti kosninguna. Þessi þreytandi Hæstiréttur sem enginn þolir – nema rétt á meðan hann hann beitir nákvæmni sinni á gengislán sem menn vilja ekki greiða.
Það er auðvitað skiljanlegt að menn hafi ríka samúð með málstað fatlaðra og vilji létta þeim lífið eins og mögulegt er. Hvað getur nú verið á móti því að leyfa þeim að koma með mann með sér til að kjósa, einhvern sem sá fatlaði treystir betur en kjörstjórnarmanni sem kemur þetta ekkert við?
Jú, á móti því mælir það grundvallaratriði sem nefnt var í upphafi. Og það er ekki svo lítið. Um leið og menn geta farið með vini og kunningja, hvern sem þeim sýnist, með í kjörklefann opnast dyrnar fyrir margt sem grefur undan trúverðugleika kosninga.
Vafalítið eru fatlaðir einstaklingar, að fötluninni frátalinni, svipaðir og allir aðrir. Það er til dæmis fráleitt að ætla að þeir séu óheiðarlegri en aðrir menn. Þeir eru þannig hvorki líklegri né ólíklegri en aðrir til að selja atkvæði sitt. Vafalaust myndu fæstir þeirra falla í þá freistni, jafnvel þótt tækifærið yrði skyndilega skapað með því að leyfa þeim að velja sér mann með í klefann. Fyrir þeim flestum og samtökum þeirra vakir ekki annað en að hinum fatlaða verði hlíft við því að þurfa að trúa kjörstjórnarmanni, sem hann hugsanlega þekkir úr daglegu lífi sínu, fyrir því hvernig hann kýs. Og það er skiljanlegt sjónarmið.
En það skiljanlega sjónarmið breytir ekki því, að með því að heimila kjósanda að taka vin eða kunningja með í kjörklefann, þá hafa menn breytt um eðli kosningarinnar. Menn sjá eiginlega þungann í því atriði, við það að velta fyrir sér hvort þeir teldu rétt að leyfa ófötluðum einstaklingi að taka einhvern með sér.
Svo er annað atriði sem menn geta velt fyrir sér. Fatlaðir eru fjölmennur hópur og aðstæður þeirra mjög mismunandi. Ímyndi menn sér blindan mann, Jón, sem er mjög háður systur sinni, Gunnu, í daglegu lífi. Þau systkinin eru náin en Jón hefur aldrei kunnað við að segja systur sinni hversu ósammála hann er henni í stjórnmálum. Hún er funheitur frjálshyggjumaður en hann hallast til vinstri, án þess að vera ákafur í því. Jón hefur í gegnum árin látið ræðuhöld Gunnu um þau yfir sig ganga og látið sér nægja að kinka kolli, til að halda friðinn. En hvað nú, þegar góðviljaðir þingmenn breyta lögum og leyfa honum skyndilega að taka með sér sinn eigin aðstoðarmann í kjörklefann? Hvað liggur beinna við en að biðja systurina, sem sér um svo margt annað fyrir hann, að koma nú með? Hvers konar skilaboð væru það nú til hennar ef henni yrði ekki treyst fyrir þessu einfalda verkefni, eftir öll þessi ár?
Nú finnst eflaust mörgum sem slíkt ímyndað dæmi sé langsótt og skipti litlu. Það má vera. En það er sett fram til að minna á að aðstæður fólks eru mismunandi og ekki einungis þeir, sem beita sér opinberlega, sem hafa hagsmuni sem horfa má á. En stærstu hagsmunirnir eru þó þeir, að kosning verði áfram leynileg og að kjósandinn geti ekki valið með sér mann í kjörklefann. Því miður, því þarna hefði verið ódýr leið til að losa margan fatlaðan mann við skapraun.