Föstudagur 29. júní 2012

Vefþjóðviljinn 181. tbl. 16. árg.

Ríkisfjölmiðlarnir hafa síðustu daga flutt af því hverja fréttina á fætur annarri að nú sé efnahagslífið með miklum blóma, kreppan búin og allt í mikilli gleði.

Gott ef satt er. Góð aflabrögð, hátt afurðaverð, ferðamannastraumur og gott gengi stóriðjunnar hafa dregið vagninn af krafti undanfarið. Einnig skipti auðvitað verulegu máli að ríkið hafði greitt niður allar erlendar skuldir sínar, áður en Samfylkingin komst til valda. 

En í allri þessari skyndilegu umfjöllun ríkisfjölmiðlanna um hversu allt er í skyndilegum uppgangi, þá virðist eitt alveg gleymast.

Hvers vegna ætli ríkisfjölmiðlarnir rifji ekki upp hrakspárnar sem dundu á landsmönnum um það sem myndi gerast ef þeir tækju ekki á sig Icesave-klafann? Hvers vegna ætli ríkisfjölmiðlarnir rifji ekki upp æsinginn í forystumönnum ríkisstjórnarinnar og öllum fræðimönnunum hennar sem gengu af göflunum í bæði skiptin þegar forseti Íslands sagðist hafa synjað Icesave-lögunum staðfestingar? 

Og hvers vegna ætli ríkisfjölmiðlarnir hafi ekki enn sagt fólki frá hinni hörðu gagnrýni forseta Íslands á framgöngu Ríkisútvarpsins í upphafi kosningabaráttunnar í vor? Í öllum öðrum löndum hefði svo hörð gagnrýni þjóðhöfðingja á fréttastofu ríkisins verið stórfrétt. En íslenska Ríkisútvarpið segir ekki frá gagnrýninni einu orði, og kemst upp með það.

Ríkisútvarpið er alveg einstakt.