Laugardagur 30. júní 2012

Vefþjóðviljinn 182. tbl. 16. árg.

Tveir frambjóðendur með rætur á vinstri kanti stjórnmálanna virðast samkvæmt könnunum bítast um embætti forseta Íslands í kosningunum í dag. Það er raunar áhugavert út af fyrir sig að allir frambjóðendurnir sex virðast af þeim kanti.

Þótt Vefþjóðviljinn hafi lítið hugsað og minna fjallað um þessar kosningar eru þær athyglisverðar fyrir tvennt. 

Annars vegar er dásamlegt að fylgjast með fyrrum samherjum Ólafs Ragnars Grímssonar kljást við hann. Stór hópur manna sem kom honum í forsetaembættið 1996 á nú þá ósk heitasta að ryðja honum burt. Fyrir aðeins nokkrum árum var Ólafur Ragnar Grímsson helsta og merkasta fóstur íslenskra vinstri manna og á sama hátt voru þjóðaratkvæðagreiðslur eitt helsta baráttumál þeirra. En frá þeirri stundu sem Ólafur Ragnar sagðist hafa neitað að staðfesta lög frá vinstristjórn, hafa íslenskir vinstri menn náð að sýna bæði honum og þjóðaratkvæðagreiðslum fádæma óvild og óvirðingu. Jafnvel þingmenn vinstri flokkanna nota fáheyrðan munnsöfnuð um manninn. Ráðherrar kalla þjóðaratkvæðagreiðslur skrípaleik og ómark, mæta jafnvel ekki á kjörstað og hafa um það mörg orð opinberlega fyrirfram hversu óþarft sé að kjósa.

Hins vegar hefur kosningabaráttan undanfarnar vikur verið furðulega rætin. Ekki síst þegar haft er í huga að æstustu stuðningsmenn frambjóðenda – umræddir af vinstri vængnum – hafa ætíð sagst hafa mjög á móti „neikvæðum áróðri“ í kosningabaráttu. Sumarið 1996 var mjög hneykslast á því að nokkrir menn gagnrýndu Ólaf Ragnar Grímsson forsetaframbjóðanda í blaðaauglýsingu fyrir ýmis verk hans sem þingmaður, fjármálaráðherra og formaður Alþýðubandalagsins. Allt var það þó efnisleg gagnrýni en ekki persónulegt níð. En nú ber svo við að jafnvel fjölskyldur frambjóðenda, fyrrverandi makar, börn og gamalmenni, eru dregnar inn í baráttuna til að koma höggi á frambjóðendur. Þeir sem nota hina svonefndu Facebook munu iðulega vera furðulostnir á óþverranum sem birtist þegar stuðningsmenn frambjóðenda byrja að útskýra lesti annarra frambjóðenda.

Hvernig sem kosningarnar fara getur Vefþjóðviljinn ekki annað en þakkað vinstri mönnum fyrir þessa einstæðu sýningu á sjálfum sér. Verði þeim að góðu.