Fimmtudagur 28. júní 2012

Vefþjóðviljinn 180. tbl. 16. árg.

Í umhverfisráði Reykjavíkur fer nú fram tryllt keppni um hver geti lagt fram „metnaðarfyllstu“ tillöguna um að skikka borgarbúa til að lesa sundur sorp, skrúbba ruslið vandlega og borga svo fyrir sérstaka tunnu undir það og sérstakan sorptrukk til að sækja það sem safnast í hana. Helstu keppendur eru fulltrúar Sjálfstæðisflokks undir forystu Gísla Marteins Baldurssonar og fulltrúar Besta flokks Samfylkingarinnar með Karl Sigurðsson í fararbroddi. 

Endurvinnsla er þungaiðnaður. Hvað eru margir sorptrukkar á ferðinni í Reykjavík vegna endurvinnslu?
Endurvinnsla er þungaiðnaður. Hvað eru margir sorptrukkar á ferðinni í Reykjavík vegna endurvinnslu?

Karl lagði til að borgarbúum yrði bannað að setja túnfífil og kornflögukassa í ruslatunnuna og Gísli Marsteinn svaraði með tillögu um að setja ætti kornflögupoka, pylsupakka, smokka og annað plast í sérstaka tunnu. Karl bauð þá fram sérstakar sorplöggur sem myndu fara á undan ruslabílunum og gramsa í almennum sorptunnum fólks í leit að óflokkuðu dagblaði eða laufblaði. 

Allt miðar þetta að því að tryggja þungaiðnaði sem nefnist „endurvinnsla“ hráefni á kostnað almennings. Þessi þungaiðnaður þrýstir víða um lönd á stjórnmálamenn að vera ekki eftirbátar annarra í endurvinnslu. Sífelldur áróður dynur til að mynda á sveitarstjórnum um að þær séu langt á eftir í þessum efnum.

Endurvinnslustöð við Ánanaust. Hve mikið af verðmætu borgarlandi fer undir endurvinnslustöðvar og grenndargáma?
Endurvinnslustöð við Ánanaust. Hve mikið af verðmætu borgarlandi fer undir endurvinnslustöðvar og grenndargáma?

Það má huga að nokkrum atriðum í þessu sambandi.

Hvað myndi sorptrukkum – þ.m.t. gámaflutningabílum sem sækja „grenndargáma“ og aðra sorpgáma á „endurvinnslustöðvar“ –  fækka mikið á götum Reykjavíkur ef allt heimilissorp í borginni væri urðað eða því fargað á annan einfaldan hátt? Ætli einhver fulltrúi í umhverfisráðinu hafi velt svarinu við þessari spurningu fyrir sér? Eða takmarkast andúðin á bílaumferð við „einkabílinn“?

Er einnig hugsanlegt að án afskipta borgarinnar af sorphirðunni myndi almennum sorpbílum, sem sækja venjulegt heimilissorp, snarfækka því þeir yrðu nýttir miklu betur en sorphirða borgarinnar gerir nú?

Er flutningur milli landa á hræódýru efni eins og papparusli góð nýting á orku og öðrum verðmætum?
Er flutningur milli landa á hræódýru efni eins og papparusli góð nýting á orku og öðrum verðmætum?

Hvort ætli fari meira og verðmætara land undir „endurvinnslustöðvar“, „grenndargáma“ og bláar tunnur vítt og breitt innan borgarinnar eða urðunina sem þyrfti til viðbótar í Álfsnesi til að taka við öllu endurvinnsluföndrinu? Ætli umhverfisráð borgarinnar hafi hugmynd um það? Eftir því sem maður með meistaragráðu í borgarfræðum hefur haldið fram er mikil eftirspurn eftir svæðum innan byggðar í Reykjavík en ekki fyrir utan bæinn eins og á Álfsnesi. Að ógleymdum þeim 300 þúsund króna fermetrum sem fara undir dagblaðabunka og flöskupoka innan dyra hjá fólki.

Að lokum mætti umhverfisráð borgarinnar og raunar sveitarstjórnarmenn um land allt velta því fyrir sér hvort það geti verið góð nýting á takmörkuðum gæðum þessa heims að almenningur eyði tíma og fjármunum í að safna saman hræódýru efni eins og papparusli, komi sér upp sérstakri tunnu fyrir það sem tæmd er af sérstökum sorpbíl eða flytji á fjölskyldubílnum á „endurvinnslustöð“ þar sem gámatrukkur sækir það, ruslinu sé svo pakkað í annan gám sem fluttur er í skip sem flytur ruslið yfir Atlantshafið.

Eða eru engin takmörk fyrir því hvað má eyða og sóa ef hægt er að kalla það endurvinnslu?