Miðvikudagur 27. júní 2012

Vefþjóðviljinn 179. tbl. 16. árg.

Lokasprettur baráttunnar fyrir forsetakosningarnar er nú að hefjast og stutt í að frambjóðendur mæti í innihaldslausasta umræðuþátt hvers árs, þáttinn kvöldið fyrir kjördag.

Allir hafa þeir talað fram og til baka um lýðræði, „rétt þjóðarinnar“ og geysilega mikilvægt hlutverk forseta Íslands. Allir hafa þeir talað um að svo kunni að fara að þeir neiti að staðfesta lög frá alþingi, ef nægilega margir landsmenn séu sagðir hvetja þá til slíks með undirskriftum sínum.

Hvernig væri nú að fréttamenn spyrðu þá spurningar eins og:

Ert þú tilbúinn til að veita landsmönnum tækifæri til að fá fram forsetakosningar áður en fjögurra ára kjörtímabili er lokið?

Þetta væri afar einfalt í framkvæmd og þyrfti hvorki lagabreytingu né stjórnarskrárbreytingu. Ef forseti ákveður að láta af embætti áður en kjörtímabili hans er lokið, fara fram nýjar forsetakosningar. Forseti gæti þannig tilkynnt að berist honum svo og svo margar undirskriftir þá muni hann segja af sér embætti, nýjar kosningar fara þá fram og þar myndi hann leggja störf sín í dóm þjóðarinnar með því að leita endurkjörs. „Þjóðin“ gæti þannig knúið fram kosningar um forsetann, rétt eins og frambjóðendurnir segja að „þjóðin“ geti fengið kosningar um nýsamþykkt lög.

Ef það er nú rétt hjá forsetaefnunum að „þjóðin“ – og þá eiga þeir reyndar við eitthvert brot hennar í undirskriftasöfnun – geti knúið fram kosningar um lög sem meirihluti alþingis hefur sett, hvers vegna ætti sama „þjóð“ ekki að geta fengið kosningu um áframhaldandi setu forseta í embætti? Getur ekki myndast gjá milli þjóðar og forseta, alveg eins og milli þjóðar og þings? Er forsetaembættið ekki geysilega mikilvægur öryggisventill? Er þá ekki mikilvægt að „þjóðin“ geti skipt um mann á ventlinum, ef hún er ekki ánægð með hann?

Forsetaefnin hafa öll talað um hversu miklu skipti að forsetinn sé „þjóðkjörinn“. Varla vilja þau neita þjóðinni um rétt til að skipta um forseta ef hún telur brýnt að fá að gera það þegar í stað? Varla ætlast forsetaefnin til að þjóðin hafi bara rétt til að hafna einhverjum lagaákvæðum, en verði að sitja árum saman uppi með forseta sem hún vill skipta út.

Varla getur verið að forsetaefnin vilji sjálf sitja ósnertanleg, en á sama tíma fá vald til að stöðva það sem löglega kjörið alþingi hefur gert, og er tvímælalaust hlutverk þess.

Forseti sem telur sig þurfa að lúta einhverjum þúsundum undirskrifta sem krefðust kosninga um gildi einhverra laga, hvernig ætlar hann að hafna beiðni jafnvel enn fleira fólks um nýjar forsetakosningar?