Þriðjudagur 26. júní 2012

Vefþjóðviljinn 178. tbl. 16. árg.

Axel Kristjánsson lögmaður ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann veik að hinu fyrsta sinni er Ólafur Ragnar Grímsson neitaði sem forseti Íslands að staðfesta lög frá Alþingi. Eins og Axel bendir á hafa fáir haft áhuga á þessu nú er Ólafur Ragnar leitar endurkjörs.

Hví skyldi það vera?

Fjölmiðlamenn hafa þráspurt Ólaf um synjanir hans á Icesave-lögunum en ekkert minnst á upphafið 2004 er hann neitaði að staðfesta einhvers konar samkeppnislög um fjölmiðla, sem vissulega voru að minnsta kosti jafn fráleit og önnur samkeppnislög. 

Þetta er nú augljóst. 

Fjölmiðlamenn voru mjög reiðir yfir lögum sem snertu þá sjálfa, ekki síst Robert Marshall og fleiri starfsmenn fjölmiðlafyrirtækis Baugs sem töldu sérstaklega að sér vegið. Skipulögðu þeir undirskriftasöfnun að því tilefni þar sem Robert hvatti til þess að fólk sem væri fylgjandi lögunum yrði látið skrifa undir.

Það var út af fyrir sig næg ástæða, því fjölmiðlamenn eru sjálfhverfir með afbrigðum.

Þar við bættist sá möguleiki að koma höggi á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ekki myndi meðalfjölmiðlungur fyrr eða síðar láta slíkt tækifæri ónýtt.