Vefþjóðviljinn 170. tbl. 16. árg.
Alþingi samþykkti í síðustu viku lög sem heimila fjármálaráðherra að „undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf. um lán til gangaframkvæmda fyrir allt að 8.700 milljónir króna, miðað við verðlag í lok árs 2011.“
Vaðlaheiðargöng hf. eru ekki ríkisstofnun heldur einkahlutafélag, sem er í tæplega helmingseigu einkaaðila.
Meðal stjórnarmanna í hlutafélaginu er Kristján Möller.
Meðal þeirra þingmanna, sem greiddu atkvæði með lögunum sem heimila um níu milljarða lánsgreiðslu til hlutafélagsins, er Kristján Möller.
Aðeins ein regla gildir um vanhæfi alþingismanna. Hún er í 71. grein laga um þingsköp alþingis þar sem segir skýrt: „Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.“
Kristján Möller alþingismaður greiddi atkvæði með geysilegri fjárgreiðslu, í formi láns, til hlutafélags þar sem Kristján Möller situr í stjórn.
Það er ekki það sama og greiða atkvæði með fjárveitingu „til sjálfs sín“, en það er ekki langt frá því. Má þingmaður, sem ekki má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín, greiða atkvæði með fjárgreiðslu til hlutafélags þar sem hann situr í stjórn?
Ætli íslenskir fjölmiðlar hafi áhuga á að fjalla um hvort þetta sé eðlilegt?
Þá byrja þeir kannski á að tala við Ríkisendurskoðun. Spyrja eftir Sveini Arasyni.
– Uppfærsla: Í tölvupósti til Vefþjóðviljans í morgun segist Kristján Möller hafa sagt sig úr stjórn félagsins 17.apríl sl., sem er þá rúmum tveimur vikum eftir að frumvarpið var lagt fram á þingi.
Samkvæmt upplýsingum Lánstrausts frá Fyrirtækjaskrá kl. 00:48 í nótt sem leið var Kristján L. Möller hins vegar enn í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. Formlega virðist því Kristján hafa verið í stjórn félagsins þegar hann greiddi atkvæði með stórkostlegri lánafyrirgreiðslu Alþingis til þess.