Helgarsprokið 17. júní 2012

Vefþjóðviljinn 169. tbl. 16. árg.

Í dag verður víða leikið og sungið lagið sem Dúmbó og Steini gerðu frægt og flestir kunna að minnsta kosti viðlagið úr, hæ hó jibbí ei og svo framvegis. 

Fyrir nokkrum árum tók ný og yngri hljómsveit lagið upp að nýju og gaf út. Sú útgáfa var talsvert spiluð á útvarpsstöðvum nokkra þjóðhátíðardaga í röð. Og þá fór ekki milli mála að jafnvel þar hafði nútíminn komið að málum.

Unga hljómsveitin gerði nefnilega örlitlar breytingar á textanum, sem sunginn hafði verið áratugum saman. Ekki margar og ekki stórar við fyrstu sýn, en samt nægilegar til að einhverjum hefur þótt ástæða til að gera þær. Og hverjar voru hinar áríðandi breytingar?

Flestir kannast við línurnar: „Skrúðgöngurnar þramma undir lúðrarsveitarleik / lítil börn með blöðru hin eldri snafs og reyk.“ Halda menn að nútímamenn, heilbrigðir og uppfræddir þoli slíkar hátíðarfrásagnir? Nei, í nútímaútgáfunni fengu skrúðgöngurnar að þramma ennþá, þótt næsta uppfærsla muni eflaust strika út slíkan hernaðaranda, en þar sem áður hafði verið sagt frá fólki með snafs og reyk, kom nú: „Lítil börn með blöðru, að lyfta sér á kreik.“

Ætli Siv Friðleifsdóttir hafi samið þetta?

Önnur breyting var gerð og hefur líka þótt áríðandi. Áður hafði verið sungið í áratugi: „Um kvöldið eru allsstaðar útidansleikir / að sunnan koma rándýrir skemmtikraftarnir.“ Nú var þessu breytt. Þeir eru ekkert betri fyrir sunnan. Það eru allir jafn góðir. Þess vegna er rétt að syngja: „Um kvöldið eru allsstaðar útidansleikir / og ævinlega spila þarna góðar hljómsveitir.“

Það að einhverjum þyki nauðsynlegt að gera slíkar breytingar á alkunnum texta, sem aðeins er sunginn til skemmtunar einn dag á ári, segir talsverða sögu um tíðaranda. Raunar er tíðarandinn um það sem má segja, á að segja og má alls ekki segja, mjög áhugavert umhugsunarefni. Um suma hópa þykir mjög fínt að tala með alls kyns ókvæðisorðum, en um aðra leyfist aðeins ein skoðun. Fáir sáu neitt athugavert þegar sjómaður einn var dæmdur til refsingar fyrir að lýsa þeirri skoðun sinni að Afríkunegrar væru latir. Ef hann hefði hins vegar lýst þeirri skoðun að íslenskri stjórnmálamenn væru spilltir, lögfræðingar blóðsugur og bankamenn þjófar, hefði hann hins vegar aldrei verið látinn standa fyrir máli sínu – og sjálfsagt orðið lofsungin þjóðhetja ef einhver hefði reynt slíkt. Athugasemdakerfi netmiðlanna hefðu bólgnað af lofi um manninn ef hann hefði hellt sér yfir slíka þrjóta. 

Sama gildir á ótal sviðum. Menn geta haldið fram fullkomnum staðleysum um mikilvæg mál eða boðað ýmsar stórhættulegar kenningar. Lagt til að eignarréttur í landinu verði afnuminn, þingræðið líka, forseti skipi ríkisstjórn að eigin höfði eða að óvinsæl lög gildi ekki. Á dögunum talaði sjálfur innanríkisráðherra landsins gegn einkaeignarrétti. Ef marka má opinbera umræðu þykja þeir sem þessu halda fram oft vera mjög marktækir menn. En ef einhver þeirra bætti við að hann teldi að hjónaband geti bara verið milli fólks af sitthvoru kyni, þá myndi umburðarlyndi áheyranda hans sennilega minnka hratt.

Fyrir nokkrum árum var beinlínis bannað með lögum að tala opinberlega um einstakar tóbakstegundir, nema það væri sérstaklega gert til þess að vara við neyslu þeirra. Það er bannað að skrifa í blöðin og segja að sér þyki London Docks betri vindlar en Fauna. Enda þorir enginn að fremja slíkan glæp. Opinberar nefndir gera út flugumenn í sjoppur til að reyna að veiða kaupmanninn við að selja unglingi pakka af Winston og birta niðurstöðurnar svo í fjölmiðlum. Fínu bannmennirnir snobba hins vegar margir fyrir léttvíni og því má tala um einstakar léttvínstegundir, þótt áfengisdrykkja hafi sennilega ekki farið neitt betur með fólk en tóbaksnotkun. Bannmennirnir vilja geta lesið í blöðunum um fínu léttvínin sín, en þessir aumingjar sem ennþá reykja mega ekki ræða sínar tegundir. Eigendur veitingastaða mega ekki einu sinni leyfa reykingar á sínum eigin stað, því að það er búið að veita öðru fólki sérstakan rétt til þess að fara inn á annarra manna veitingastaði án þess að anda að sér tóbaksreyk. Frekustu gestirnir fá að setja húsreglunar.

Svo eru það fjöldaskoðanirnar. Menn ættu að spyja þingmenn hvort þeim þyki Sigur Rós skemmtileg hljómsveit eða Mugison hæfileikaríkur söngvari. Þar myndu jáatkvæði falla 63-0, ef þingmenn vissu að svarið yrði birt. Geta menn þó velt fyrir sér hversu líklegt er að þingmennirnir hafi í raun svo einsleitan tónlistarsmekk. En á tímum þar sem stjórnmálamaður vill fátt síður en ganga gegn því sem hann heldur að sé krafa tímans, þá er ekki að vænta nema staðlaðs svars. Ætli það megi finna einn þingmann sem er reiðubúinn að segja frá því opinberlega í maímánuði að hann hafi engan minnsta áhuga á eurovision?

En hvers vegna að hugsa um allt þetta á þjóðhátíðardegi? Þann dag eiga menn frekar að fagna. Ísland fékk um síðir frelsi og fullveldi eftir margra alda baráttu. Að vísu vilja áhrifamiklir menn að Ísland skili því aftur og telja sig hafa reiknað út að það geti skilað lægra verði á jógúrt. En þeir hafa ekki enn unnið sigur. Og svo lengi sem þeir vinna ekki sigur á frelsi og fullveldi landsins er full ástæða til að fagna. Nú fara því allir í bæinn. Lítil börn með blöðru, hin eldri snafs og reyk.