Vefþjóðviljinn 168. tbl. 16. árg.
Ofan í eignabruna og tekjutap undanfarinna missera hafa venjulegir launamenn og íslensk fyrirtæki mátt þola ofboðslega skattpíningu. Þar við bætist að gjaldskrár einokunarfyrirtækja hins opinbera, eins og Orkuveitu Reykjavíkur, hafa snarhækkað.
Nú berast hins vegar af því fréttir að Tom Cruise leikari sé hingað kominn á einkaþotu sinni til kvikmyndagerðar. Mun ætlunin að festa á filmu svonefnda Hollywood-mynd um baráttuna við geimverur.
Hermt er að Cruise hafi tekið á leigu hótelsvítu í Reykjavík og glæsihýsi norður í landi og viðurgjörningur annar verði allur með ágætum, sérinnflutt húsgögn og matsveinn, svo nokkuð sé nefnt.
Allt er þetta umstang fulltrúanna frá Hollywood í dýrari kantinum og kvikmyndir sem við það ágæta hverfi eru kenndar dýrar eftir því. Því hefur Alþingi sett þá reglu að hinn geysilega vel stæði ríkissjóður Íslands endugreiði 20% af kostnaði sem fellur til við gerð kvikmynda hér á landi. Kemur sér þá vel hin aukna skattheimta vinstri stjórnarinnar af landsmönnum.
Er það sérlegt ánægjuefni að íslensk þjóð hafi jafnað sig svo vel á helstu einkennum „hrunsins“ að skattfé hennar sé nú nýtt til niðurgreiðslu á einkaþotum, glæsigistingu og þjónustufólki á þönum í kringum stjörnurnar.