Þriðjudagur 29. maí 2012

Vefþjóðviljinn 150. tbl. 16. árg.

Hagmunasamtök heimilanna hafa verið áberandi þátttakandi í þjóðmálaumræðunni frá skellinum haustið 2008. Samtökin hafa gert ýmsar kröfur á ríkisvaldið og ekki síður á banka og aðra lánveitendur. 

Samkvæmt frétt Eyjunnar eru félagsmenn nú nær 8 þúsund og samtökin standa ágætlega fjárhagslega.

Svo segir í fréttinni:

Þá eiga samtökin von á samtals 2,5 milljónum króna í styrki frá VR og velferðarráðuneytinu.

Vefþjóðviljinn staldrar auðvitað fyrst við að sjálfstætt félag af þessu tagi skuli hafa áhuga á styrk frá ríkisstjórninni sem það stendur í stappi við. Eða VR, eins og tengsl þess félags við lánveitandann Lífeyrissjóð verslunarmanna eru, en fjórir af átta stjórnarmönnum lífeyrissjóðsins eru valdir af VR.

Svo eru það fjárhæðirnar. Búið er að banna stjórnmálaflokkum og frambjóðendum að taka við fjárhæðum umfram nokkur hundruð þúsund krónur. Þetta á til að mynda við um þá sem vilja kynna sig í prófkjöri og eru ekki með spurningaþátt í sjónvarpinu til þess arna.

En mega hagsmunasamtök þiggja ótakmarkaðar fjárhæðir frá ríkinu og öðrum stofnunum? Fé sem öðrum þræði nýtist kannski í framboðsbrölti formannsins til embættis forseta lýðveldisins, nú eða ef það gengur ekki þá í næsta prófkjöri í villta vinstrinu? Svo fjarstæðukennt dæmi sé tekið.