Miðvikudagur 30. maí 2012

Vefþjóðviljinn 151. tbl. 16. árg.

Í lýðræðisríkjum, þar sem allir mega lýsa skoðunum sínum opinberlega, og jafnvel troða þeim inn um bréfalúgur nágrannans flesta morgna, fer ekki hjá því að margar hugmyndir komist á kreik. Sumar ágætar, aðrar fráleitar. 

Við hrun viðskiptabankanna þriggja, haustið 2008, og upplausn í framhaldi af því, munu allmargir talsmenn fráleitra hugmynda hafa fengið eina í viðbót, þá að nú væri Þeirra tími runninn upp. Nú mættu þeir leiða kreddur sínar í lög og jafnvel stjórnarskrá. Nú myndi enginn segja neitt þó þeir legðu undir sig innlenda dagskrá Ríkisútvarpsins til að boða lífsskilning sinn og á þingi myndi enginn þora að segja neitt. 

Og ef einhver þyrði að andmæla, þá myndu þeir einfaldlega svara með spurningunni: Fór fram hjá þér að hér varð hrun?

Og meðal annars þess vegna er þeim svo annt um að tala um hrun. Ekki aðeins hrun þriggja öflugra banka og fjárhagstjón margra í framhaldi af því – sem vissulega varð – heldur einnig „þjóðfélagshrun“ sem á að verða afsökun þeirra fyrir lögleiðingu ótal ranghugmynda.

Ein vitlausa hugmyndin sem þessir menn vilja lögleiða, og ekki sú alvarlegasta, er nú á leið um þingið

Þeir vilja að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á þingi, heldur kalli varamenn inn fyrir sig. Þessi hugmynd er mjög vinsæl meðal gasprara.

En hvers vegna á að færa atkvæðisrétt ráðherra frá ráðherrum til varaþingmanna? Ætli það geti nokkuð verið til þess að fjölga stjórnmálamönnum á launum? Atkvæðisréttur ráðherra á þingi er enginn grundvöllur áhrifa ráðherrans. Það er ráðherradómurinn og forysta í eigin flokki. Hvor stjórnarflokkur hefur nú fjóra ráðherra. Ríkisstjórn þarf þrjátíu og tvö atkvæði til að hafa meirihluta á þingi. Það skiptir engu máli fyrir ráðherrann hvort hann leggur sjálfur til eitt af þessum þrjátíu og tveimur atkvæðum.

Tillagan um að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á þingi þjónar tvennum tilgangi. Hún kemur varamanni í fast þingsæti – enda er tillagan jafnan mjög vinsæl hjá þeim þingmönnum sem eru í tæpu þingsæti – og hún hefur þann tilgang, að sá sem heldur henni á loft getur í stutta stund látið eins og hann hafi eitthvað fram að færa. Að það skipti einhverju minnsta máli fyrir völd Steingríms J. Sigfússonar hvort hann ýtir sjálfur á einn af sextíu og þremur tökkum í þinghúsinu eða eftirlætur það varaþingmanni sínum. Að það að Geir Haarde hafi haft atkvæðisrétt á þingi, samhliða ráðherradóminum, hafi skipt einhverju minnsta máli.

En þeir sem trúa þessu, þeir hljóta að hafa verið ánægðir á dögunum. Þá kallaði Jóhanna Sigurðardóttir á varamann sinn, Baldur Þórhallsson ESB-sérfræðing fréttastofu Ríkissjónvarpsins, en sat sjálf á meðan í þinghúsinu án atkvæðisréttar. Fundu menn ekki hvernig áhrif hennar minnkuðu um leið? Eins og Karl Berndsen orðar það ekki: Þetta er allt í atkvæðisréttinum.