Mánudagur 28. maí 2012

Vefþjóðviljinn 149. tbl. 16. árg.

Sumir hafa gagnrýnt söngkonuna Grétu Salóme Stefánsdóttur og félaga hennar fyrir að mótmæla ekki mannréttindabrotum í Azerbajdsan. Björn Bjarnason hafði eftir einum kastljósmanni Ríkissjónvarpsins að sá vonaði að hún „skíttapaði“ í söngvakeppninni.

En átti söngkonan að mótmæla ástandi mála í Azerbajdsan? Nei, það var ekki hennar hlutverk. Það var íslenska ríkisútvarpið sem ákvað að taka þátt í keppni sem fram fór í landinu. Það er sú ákvörðun sem menn eiga að deila um, en ekki hvort söngkonan sem valin var til þátttöku hefði persónulega átt að hefja mótmælaaðgerðir.

Ákvörðunin um að Ríkisútvarpið sendi gleðisveit til Azerbajdsan er auðvitað tekin á ábyrgð Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Þeir sem eru ósáttir við að fulltrúi íslenska ríkisútvarpsins syngi og dansi í Bakú eiga að snúa sér til Katrínar, ekki söngkonunnar. Það var ekki Gréta Salóme sem ákvað að íslenska ríkisútvarpið tæki þátt í keppninni í Azerbajdsan. Gréta Salóme ber enga ábyrgð á íslenska ríkisútvarpinu. Það gerir Katrín Jakobsdóttir – þótt aðdáendur Katrínar haldi að vísu að hún beri enga ábyrgð á því gerist í landinu eða hefur gerst þau þrjú ár sem hún hefur setið í ríkisstjórn.

Einhver reynir hugsanlega að koma ábyrgðinni frá Katrínu og yfir á stjórnendur Ríkisútvarpsins. Það sé „sjálfstæð stofnun“ – en það hugtak þýðir að starfsmenn eiga ríkisstofnun, mega fara með hana að vild og bera enga ábyrgð. En endanleg ábyrgð hér er hjá ráðherranum. Menn ættu að ímynda sér að ríkisútvarpið í Sýrlandi myndi bjóða því íslenska að taka þátt í „Söngvakeppni fólksins“, sem halda ætti til að fagna þeirri skjaldborg sem Assad hefði slegið um heimilin í Homs. Og að starfsmenn Ríkisútvarpsins vildu vera með og Páll Magnússon léti undan eins og alltaf þegar starfsmenn hans eru annars vegar. Dettur þá einhverjum í hug að stjórnvöld hefðu ekki á valdi sínu að stöðva það? Að Ríkisútvarpið væri bara „sjálfstæð stofnun“ og því gætu stjórnvöld ekkert gert nema „lýst áhyggjum“?

Nei auðvitað ekki. Allir sjá að stjórnvöld í landinu gætu stöðvað slíka þátttöku ef þau kærðu sig um. Og auðvitað á það sama við hvort sem söngvakeppni fer fram í Baku eða Damaskus.

Og svo væri gaman að vita, hversu margir þeirra sem ekki vildu að farið yrði og keppt í Azerbajdsan, eru óðir og uppvægir að fá að taka við kínversku peningunum hans Huang Nubo.