Helgarsprokið 27. maí 2012

Vefþjóðviljinn 148. tbl. 16. árg.

Pólitíska hlutdrægnin er auðvitað versti gallinn á íslenskum fréttastofum. En ekki sá eini.

Einn gallinn er tilfinningasemin sem öðru hverju brýst út, bæði í hefðbundnum fréttatímum sem og í fréttatengdum þáttum. Verður hlutfall aðalatriða og aukaatriða þá oft ákaflega skakkt.

Sem dæmi má nefna nýlega sjónvarpsfrétt, um svonefndar vörslusviptingar. Deilt hefur verið um rétt lánafyrirtækja til að taka í sínar vörslur þá hluti sem fólk hefur leigt af þeim, en ekki greitt. Oftast eru þetta bílar en stundum önnur tæki. Önnur sjónvarpsfréttastöðin gerði tilfinngaþrungna frétt um málið. 

Og hvert var aðalatriðið, sem margoft var hamrað á í fréttinni? Jú, bifreið var tekin af tveggja barna móður sem þar með gat ekki keyrt börnin til dagmóður. Tveggja barna móðir, tveggja barna móðir. Þetta kom sér mjög illa fyrir tveggja barna móður. Hún gat ekki keyrt börnin til dagmóðurinnar. 

Vafalaust hafði fréttamaðurinn ríka samúð með lántakanum, sem ekki hafði borgað, en litla með fyrirtækinu sem ekki fékk leigugreiðslurnar sínar. En þarna hefði fréttastjóri átt að grípa í taumana. Fréttastjóri hefði átt að spyrja fréttamanninn þeirra augljósu spurninga hvort aðrar reglur giltu um tveggja barna mæður en aðra. Hvort rýmri reglur séu um vörslusviptingar þegar lántakinn er feitur kall sem notar bílinn ekki í neitt fallegt, eins og að keyra börnin. Og þegar fréttamaðurinn hefði neyðst til að svara þessum spurningum neitandi, þá hefði fréttastjórinn átt að spyrja hvers vegna þessi atriði væru þá í fréttinni.

Það er ekkert óeðlilegt við að fjölmiðlar skoði reglur um vörslusviptingar og þau úrræði sem mönnum bjóðast, sem fá ekki greidda leigu, en leigutakinn vill samt ekki skila því leigða. En að krydda fréttina með tali um einstæða móður sem kemst ekki með börnin til dagmóðurinnar, kemur fréttaefninu ekki við. Það er miklu frekar tilraun til að hafa áhrif á áhorfandann og skoðun hans á málinu. Flestir hafa auðvitað samúð með móður í vandræðum hennar, og þegar persónulegar aðstæður eins lántakanda eru gerðar að aðalatriði fréttar, þá aukast líkurnar á því að sú samúð rati á vogarskálarnar hjá áhorfandanum.  Hér á fréttin einfaldlega að fjalla um aðalatriðið – hvað má lánveitandi gera og hvað má hann ekki. Hvort sem lántakinn er indæl kona í vandræðum eða drykkfelldur leiðindakall sem heldur með Manchester United, fráskilinn og með falskar tennur.

Í hvert sinn sem tilfinningasemin virðist grípa fréttamann eða þáttastjórnanda ættu áhorfendur að vara sig. Þegar nefnd eru atriði sem eru til þess fallin að vekja skyndileg tilfinningaviðbrögð með aðstæðum viðmælandans, jákvæð eða neikvæð, samúð eða aðdáun, þá ættu menn að spyrja sig hvort þessi atriði séu í raun nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að leggja mat á málið. Auðvitað kann svo að vera. Sé réttmæt frétt gerð um aðstæður fatlaðs manns er ekkert óeðlilegt við að segja frá fötlun hans, svo dæmi sé tekið, en ótrúlega oft eru fréttir kryddaðar með tilfinningasemi sem engu breytir um aðalatriði málsins. Og þegar menn verða slíks krydds varir, þá ættu þeir að velta fyrir sér hvers vegna fréttamaðurinn bætti því í fréttina.

Og hvert sem umfjöllunarefnið er hverju sinni, þá ætti það að hringja viðvörunarbjöllum ef fréttamanni virðist mikið niðri fyrir. Ef hann hefur augljósa samúð með öðrum deiluaðila en tortryggir hinn greinilega. Ef hann hefur sérstaklega mikinn áhuga á máli, fjallar til dæmis um það ítrekað eða virðist reyna að auka dramatíkina með ýmsu móti, þá ættu menn að velta fyrir sér hvort eitthvað annað búi að baki en heilbrigð fréttamennska. Þetta á auðvitað alls ekki einungis við þegar kemur að fréttum af fjármálum fólks, heldur á þetta að vera algild varúðarregla áhorfanda í hvert sinn sem í fréttum er fjallað um mál þar sem vænta má skiptra skoðana eða ólíkra hagsmuna. 

Hér reynir á fréttastjóra að tryggja að fréttamenn sjái ekki um fréttir af málum þar sem þeir sjálfir eiga hagsmuna að gæta umfram aðra. Sé fjallað um verkfall á leikskólum, og einn fréttamaður virðist hafa sérstakan áhuga á þeim óþægindum sem verkfallið valdi foreldrum, en engan áhuga á því hvað launakröfur verkfallsmanna hefðu á fjárhag sveitarfélaganna, þá ætti fréttastjóri að kanna hvort fréttamaðurinn sé sjálfur í tómum vandræðum vegna verkfallsins. Sé fréttamaður fullur af því hversu hækkaður eignaskattur komi illa við fólk ætti fréttastjóri að kanna hvort fréttamaðurinn fari illa út úr skattinum, og svo framvegis. Fréttamenn geta beitt sér með og móti mörgu öðru en stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum. Og fréttamenn geta haft mikil slík áhrif án þess einu sinni að ætla sér það. Eigi þeir sjálfir hagsmuna að gæta kunna þeir hagsmunir að hafa áhrif á dómgreindina, jafnvel þótt fréttamaðurinn sé allur af vilja gerður að standa vel og sanngjarnt að málum. Þarna verða fréttastjórar að standa sig og gæta þess að fréttamenn segi ekki fréttir af málum þar sem þeir eru í raun vanhæfir til þess, hvort sem það er vegna hagsmuna eða heitra skoðana.