Laugardagur 26. maí 2012

Vefþjóðviljinn 147. tbl. 16. árg.

Fyrir tæpum fjórum árum tryggði íslenska ríkið eigendum sparifjár í krónum fullar bætur fyrir innstæður í afvelta bönkum. Það var einkum gert á kostnað annarra kröfuhafa í gömlu bönkunum, til dæmis íslenskra lífeyrissjóða. Auk þess að tryggja þessum fjármagnseigendum fullar skattfrjálsar bætur fyrir glataðar innstæður haustið 2008 hefur ríkið síðan lagt höft á gjaldeyrisviðskipti og tekið gríðarleg erlend lán til að halda uppi verðgildi krónunnar þegar hún er nýtt til kaupa á erlendum aðföngum. Krónueigendur geta því skipt krónum sínum í sófasett, bíla og gjaldeyri til ferðalaga á miklu betra verði en ella væri. Sá kostnaður er greiddur af öllum landsmönnum.

Maður sem átti 100 milljónir króna á reikningi í gjaldþrota banka 6. október 2008 fékk bara sísona 100 milljónir króna á reikning í nýjum banka 7. október. Gjörðu svo vel, skattfrjálst. 

Síðan hefur hann nýtt þessa fjármuni til kaupa á nýjum bíl og fleiru. Það er gert á gengi Seðlabanka Íslands sem er miklu hagstæðara en býðst erlendis þegar krónum er skipt í aðra mynt. Hjá Seðlabanka Íslands þarf maðurinn aðeins að láta 160 krónur fyrir evruna en þyrfti að láta 240 erlendis.

Kostnaður almennings við að halda uppi þessu gerviverðgildi á krónunni hleypur á tugum milljarða króna á ári vegna vaxtakostnaðar Seðlabanka Íslands við fjármögnun „gjaldeyrisforðans.“ Kannski eins og ein útrásarharpa á ári.

Þeir sem hagnast mest á þessu eru þeir sem eiga fjármuni til að eyða í innfluttar vörur.

Þeir sem tapa eru skattgreiðendur nú og síðar.