Þriðjudagur 15. maí 2012

Vefþjóðviljinn 136. tbl. 16. árg.

Nokkrir ráðherrar undir forystu Steingríms J. Sigfússonar hittu fulltrúa lífeyrissjóðanna á fundi í gær. Erindi ráðherranna var að fá lífeyrissjóðina til að fella niður skuldir þeirra sem fengið hafa svonefnd lánsveð fyrir lánum sínum, það er að segja hafa tekið lán umfram veðrými á eigin húsnæði og fengið viðbótarveð hjá mömmu eða ömmu.

Það er auðvitað ekki skemmtileg staða fyrir nokkurn mann að eigur annars fólks séu í hættu vegna skulda hans. En öllum mátti að sjálfsögðu vera ljóst þegar til skuldanna var stofnað að sú staða gæti komið upp af ýmsum ástæðum að reynt gæti á lánsveðið.

Lífeyrissjóðirnir benda einnig á að þeim sé óheimilt að fella niður innheimtanlegar skuldir og skerða þar með lífeyrisrétt sjóðsfélaga sinna. Forsvarsmenn sjóðanna telja að þessi réttur sé varinn af eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er því slegið upp að hugmyndum um nýjan skatt á lífeyrissjóðina vaxi fylgi. Í frétt af málinu hafnar Steingrímur J. Sigfússon því ekki að menn skoði nýjan skatt á sjóðina til að fjármagna niðurfellingu skulda vegna lánsveða.

Starfsemi lífeyrissjóða er mikið langhlaup. Þar skiptir ofboðslega miklu máli að sjóðsfélagar geti treyst því að stjórnvöld breyti ekki forsendum fyrir rekstri sjóðanna til hins verra.

Frá hruninu hafa stjórnmálaflokkarnir viðrað alls kyns hugmyndir um lífeyrissjóðina sem flestar eiga það sammerkt að færa fé frá sjóðunum til ríkisins. 

Í fyrsta lagi var opnað fyrir að fólk gæti almennt leyst út séreignarsparnað sinn þótt ekki væri gert ráð fyrir því í upphafi að menn gætu leyst þennan sparnað út fyrr en við 60 ára aldur. Að sjálfsögðu var þetta kynnt sem breyting í þágu sjóðsfélaga en eftir að norræna velferðarstjórnin snarhækkaði tekjuskattinn greiða menn í mörgum tilvikum 47% tekjuskatt af útgreiðslu úr séreignarsjóðunum. Ríkið hirðir því nær helminginn.

Þessu til viðbótar hafa stjórnmálaflokkarnir sífellt verið að leggja til og skoða þann möguleika að hirða tekjuskatt í einu lagi af öllum eignum í séreignarsjóðum. Enginn þarf að efast um hvaða skattprósenta yrði notuð við þá aðgerð. 

Það var að sjálfsögðu ekki þægilegt fyrir sjóðina að þurfa að selja eignir í skyndi til að eiga fyrir hinum auknu útgreiðslum eftir hrunið en menn geta rétt ímyndað sér hvernig það færi með alla eignastýringu ef þeir þyrftu í skyndi að selja eignir til að afhenda ríkissjóði 47% þeirra.

Þá er ekki allt talið því ríkisstjórnin hefur sífellt verið með til skoðunar að leggja eignarskatt á sjóðina.

Og nú sitja þeir undir illa dulbúnum hótunum um skattlagningu ef þeir haga sér ekki eins og ríkisstjórnin skipar fyrir um.

Allt er þetta hið versta fyrir sjóðina sjálfa. 

En þó hjóm eitt hjá því hvernig svona rugl fer með það traust sem fólk almennt ber til lífeyriskerfisins og áhuga þess á að leggja fyrir til efri áranna.