Miðvikudagur 16. maí 2012

Vefþjóðviljinn 137. tbl. 16. árg.

Í vikunni heyrðist af athyglisverðu máli í fréttum, en því verður líklega aldrei fylgt eftir.

Sagt var frá því að meirihluti stjórnar Portusar hefði viljað ráða umsækjandann Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í starf forstjóra útrásarhallarinnar Hörpu, en þrátt fyrir þennan vilja meirahluta stjórnarinnar hafi Halldór Guðmundsson verið ráðinn í starfið.

Hér er eitthvað athyglisvert á ferð.

Hvaða þýðingu hefði það haft í stjórnmálum ef Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefði verið ráðin í forstjórastarfið? Hún hefði hætt á þingi, en inn komið Óli Björn Kárason varaþingmaður. Af þingi færi Evrópusambandssinni en í staðinn kæmi andstæðingur aðildar Íslands að ESB, sem auk þess vakti athygli fyrir mjög skelegga stjórnarandstöðu þá mánuði sem hann sat á þingi í stuttu leyfi Þorgerðar Katrínar eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Og út af þingi og af framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu kosningar færi einn þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem að minnsta kosti í huga kjósenda eru nátengdir hinum föllnu viðskiptabönkum eða forsvarsmönnum útrásarfyrirtækjanna.

Hverjum hefði slík breyting orðið í óhag? Hverjir höfðu hag af því að koma í veg fyrir að þetta gerðist?

Ættu fjölmiðlar ekki að kanna málið nánar? Hvers vegna réði stjórnin ekki þann umsækjanda sem hún sjálf vildi helst?