Mánudagur 14. maí 2012

Vefþjóðviljinn 135. tbl. 16. árg.

Í gær gerðist það að forseti Íslands bar fréttastofu útvarps ríkisins þungum sökum  og sagði meðal annars að fréttamenn Ríkisútvarpsins hefðu misnotað stöðu sína til að styðja einn mótframbjóðanda forsetans.

Þessar ásakanir eru alvarlegar og sérstaklega fréttnæmt að sá, sem ber þær fram á hendur fréttastofu Ríkisútvarpsins, sé forseti Íslands. Það er ekki á hverjum degi sem þjóðhöfðingi segir fréttamenn ríkisfréttastofunnar misnota aðstöðu sína til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga. 

En einum fjölmiðli þótti þetta mál ekki fréttnæmt.  Ríkisútvarpið sendi út fjölmarga fréttatíma í útvarpi í gær auk sjónvarpsfrétta klukkan sjö. Í engum af þessum fréttatímum var áheyreyndum sagt eitt orð um að forseti Íslands hefði borið fréttastofu Ríkisútvarpsins þungum sökum. Ekki eitt orð.

Er ekki augljóst að orð forsetans eru verulega fréttnæm, hvað sem mönnum finnst annars um forsetann eða fréttastofuna?

Og þau viðbrögð fréttastofunnar, að segja ekki eitt einasta orð um ásakanir forsetans á hendur fréttastofunni, segja þau ekki meira en mörg orð?

Þeir Íslendingar, sem ekki hafa fylgst með öðrum fjölmiðlum en Ríkisútvarpinu síðan í gær, hafa ekki hugmynd um ásakanir forseta Íslands á hendur fréttastofu Ríkisútvarpsins. Ef fréttastofa Ríkisútvarpsins fær að ráða, þá verður það þannig áfram.