Helgarsprokið 13. maí 2012

Vefþjóðviljinn 134. tbl. 16. árg.

Nýlega kynnti ríkissjóður að hann hefði tekið nýtt lán að fjárhæð 1 milljarður dala – eða 125 milljarðar króna – til 10 ára á 6% vöxtum. Fjármálaráðherra var afskaplega ánægður með að eftirspurn fjárfesta eftir þessum kostakjörum hefði verið fjórföld. Einhver annar hefði kannski tekið þessa miklu umframeftirspurn alþjóðlegra fjárfesta sem vísbendingu um að í boði hefðu verið alltof háir vextir.

Arnar Sigurðsson vakti athygli á þessu máli í grein í Morgunblaðinu í gær.

Nýjasta kennisetning stjórnmálamanna er að hið mesta lán felist í sem mestu láni og hafa síðustu tvær ríkisstjórnir aukið skuldir ríkissjóðs um 1.400 milljarða frá hruni til að sannreyna kenninguna. „Lánsemi“ velferðarstjórnar fjármagnseigenda virðast engin takmörk sett og hoppa nú aðdáendur og álitsgjafar af kæti yfir nýjasta óláni þjóðarinnar vegna nýs láns upp á 1.000 milljónir dala. Þrælslund íslenskra félagshyggjumanna gagnvart erlendum fjármagnseigendum er vitaskuld heimsþekkt eftir vasklega framgöngu í Icesave-málinu. Því kom ekki á óvart að boðnir voru svo rausnarlegir vextir (6%) að eftirspurn fjárfesta samsvaraði fjórföldu framboði! Með hinum háu vöxtum skipaði nýjasti fjármálaráðherrann þjóðinni á bekk með Spáni og Portúgal sem eiga sér ekki viðreisnar von vegna efnahagshnignunar og skuldsetningar.

Arnar bendir svo að lánsféð sé ætlað til að greiða upp lán sem ber miklu hagstæðari vexti fyrir íslenska skattgreiðendur, sem fyrr en síðar greiða vextina með sköttum.

Annað orð í íslenskri tungu sem einnig hefur tvöfalda merkingu er orðið „fé“ sem jafnt er notað yfir peninga og sauðfé. Sauðsháttur er hugtak sem óneitanlega kemur upp þegar haft er í huga að lánsféð er notað til að greiða upp lán sem ber 3,25% vexti. Þegar svo við bætist að féð er ávaxtað á 0,5% vöxtum í erlendum banka fer málið að jaðra við bilun.

Arnari reiknast til að kostnaður skattgreiðenda af þessari útrás norrænu velferðarstjórnarinnar með fjármuni Íslendinga muni verða 74 milljarðar króna, í erlendri mynt.

Hin eiginlega ástæða fyrir þessari lántöku mun svo vera einhver undarleg tilraun í þjóðfélagsverkfræði í Seðlabanka Íslands sem kveður á um að bankinn þurfi að eiga – eða öllu heldur hafa að láni – mikinn gjaldeyrisforða. Seðlabankastjóri kallar þennan rangnefnda forða „vopnabúr“ þótt réttnefni á þessari fráleitu skuldsetningu íslenska ríkisins væri auðvitað tifandi tímasprengja spennt við ökkla skattgreiðenda.