Laugardagur 12. maí 2012

Vefþjóðviljinn 133. tbl. 16. árg.

Í síðustu viku lögðust þingmenn stjórnarflokkanna og fjölmiðlar þeirra á eitt til að reyna fæla þingmenn stjórnarandstöðunnar frá því að reyna að stöðva verstu gælumál stjórnarinnar. Ríkisstjórnin mætir rétt fyrir þinglok og leggur þar til atlögu við bæði undirstöður atvinnulífins og stjórnskipunarinnar, og bæði hún og fjömiðlarnir hennar virðast ætlast til að stjórnarandstaðan haldi sér bara saman á meðan.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hinn virti þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði grein í Fréttablað flokksins í vikunni til að reyna að fæla stjórnarandstöðuþingmenn frá því að þvælast fyrir. „Með því að stunda málþóf um fjölda ráðuneyta hefur verið settur nýr mælikvarði um málþóf á Alþingi. Stjórnarandstaðan leikur sér að eldi“, sagði Sigríður Ingibjörg í grein í Fréttablaðinu á miðvikudag.

Það er ekki annað. Það er hreinlega „leikur að eldi“ að tefja gildistöku gælumála Jóhönnu Sigurðardóttur í nokkra daga. 

En Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur áður séð ástæðu til að fara með stóryrðum gegn þeim stjórnarandstöðuþingmönnum sem ekki samþykkja allt umræðulaust sem ríkisstjórnin og fjölmiðlarnir hennar vilja. 

Þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir greiddi atkvæði með versta samningi þingsögunnar, Icesave II, þá hundskammaði hún stjórnarandstöðuþingmennina sem voru á móti, fyrir að „hafa notað 180 dýrmætar stundir þingsins til að berja höfðinu við steininn“. Menn geta til dæmis fylgst með skömmum þingmannsins hér. Þær hefjast á 07:27.

Nú viðurkenna víst allir að Icesave II, sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skammaði menn sem mest fyrir að hafa verið á móti, var gersamlega skelfilegur samningur. Hann var svo vondur, að helsta röksemdin með Icesave III var hversu vondur Icesave II var áður. 

Það er því líklega fremur hrós en gagnrýni þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skammar menn fyrir að tala gegn vondum frumvörpum. 

Ef menn hafa yfirleitt áhuga á sjónarmiðum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Þeir þingmenn, sem greiddu atkvæði með því að Geir Haarde yrði dreginn fyrir landsdóm, en á móti því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði ákærð, ættu kannski ekki að hafa mörg orð um þingstörf annarra.