Helgarsprokið 6. maí 2012

Vefþjóðviljinn 127. tbl. 16.árg.

Á dögunum kvað landsdómur upp dóm yfir Geir Haarde. Eins og menn muna var hann sýknaður af öllu sem máli skiptir en sakfelldur fyrir smáatriði, sem rannsóknarnefnd Alþingis hafði ekki einu sinni lagt til að hann yrði ákærður fyrir. Dagana eftir að dómurinn féll reyndu ýmsir í hópi hatrömmustu þingmanna landsins, eins og Þór Saari og Eygló Harðardóttir, að halda því fram að ákæruliðurinn sem sakfellt var fyrir hefði í raun verið sá alvarlegasti, en flestir sáu í gegnum þann fráleita málflutning. Enda var meira að segja tekið fram í dóminum sjálfum að Geir væri sýknaður af öllum alvarlegstu ákæruliðunum, þótt fréttamenn hafi auðvitað ekki tekið það fram, þegar þeir fluttu miklar fréttir af áliti þeirra Þórs og Eyglóar. Álit Eyglóar var þannig helsta frétt Ríkisútvarpsins í heilan dag, þótt fréttamenn hafi auðvitað þá verið búnir þau lesa orð landsdóms að sýknað hefði verið af öllum alvarlegustu liðunum, enda voru þau birt í örstuttum lokakafla um refsiákvörðun, sem allir fréttamenn hljóta að hafa lesið strax. Enginn fréttamaður rak þetta ofan í Eygló þá, og ekki síðar heldur. 

En fleira en þetta var athyglisvert í landsdómi. Hinn öflugi pistlahöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, fjallar um nokkur atriði í nýjasta tölublaðinu. Þar segir hann að Ísland hafi komist „mjög vel frá bankahruninu þar sem ríkið gekkst ekki í ábyrgð fyrir bankana eins og bæði Evrópulönd og Bandaríkin gerðu. En Óðinn segir um þetta og þá leið sem íslensk stjórnvöld fóru við hrun bankanna:

Þetta voru þó ekki þær ráðleggingar sem Geir H. Haarde fékk frá sérfræðingum í aðdraganda hrunsins. Í dómnum er sagt frá því að 20. mars 2008 hafi Jón Steinsson hagfræðingur sent Geir tölvupóst þarsem hann sagði nauðsynlegt að ríkið væri reiðubúið með eitthvert plan ef t.d. einn af stóru bönkunum lenti í verulegum vandræðum. Ríkið þyrfti þá að taka erlent lán til að endurlána þeim banka. Jón sagði jafnframt „spurning hvort ríkið og Seðlabankinn eigi að bjóða bönkunum upp á einhverja fjármögnunarkosti í erlendri mynt áður en málin komast á það stig að einhver bankanna verður kominn í veruleg vandræði“.

Sama dag sendi prófessor Richard Portes, hagfræðingur sem Verslunarráð hafði ráðið í almannatengsl, tölvupóst sem komið var á framfæri við forsætisráðuneytið. Þar lagði hann til að forsætisráðherra, forstjóri FME og seðlabankastjóri lýstu því yfir opinberlega að bankarnir væru í grundvallaratriðum traustir, öll úrræði Seðlabanka Íslands og íslenska ríkisins stæðu þeim að baki og það yrði ekki látið viðgangast að þeir féllu. Með öðrum orðum áttu íslenskir skattgreiðendur að ábyrgjast bankana að fullu.

Og það voru fleiri hagfræðingar kallaðir til. Utanríkisráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og viðskiptaráðherra héldu fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Gauta Eggertssyni 7. ágúst 2008, eftir að skýrsla Willem Buiters og Anne Sieberts lá fyrir. Í minnispunktum var haft eftir Gauta Eggertssyni að það væri mjög mikils virði „að standa við bakið á bönkunum“ og hættulegt að fara „í opinbera umræðu um skiptingu skuldbindinga þ.e. innlenda og erlenda“. Haft var eftir Má Guðmundssyni að mikilvægt væri að „bankarnir geti sýnt að þeir geti lifað“ og væri ódýrara fyrir ríkið að bjarga þeim en „að láta þá hrynja“. Haft var eftir Friðriki Má að það ætti „að bjarga bönkum sem eiga nægar eignir en eiga í lausafjárvanda“.

Og ekki létu bankamennirnir sitt eftir liggja í þessum söng. Í fundargerð eftir fund sem bankastjórar Landsbankans áttu með þeim Davíð Oddssyni, Ingimundi Friðrikssyni og Tryggva Pálssyni 31. júlí kemur fram að: „Halldór J. Kristjánsson hafi lýst því að hann væri ekki einn þeirrar skoðunar „að €20 þúsund sé þjóðréttarleg skuldbinding“ og Davíð svarað að engin ríkisábyrgð yrði sett nema með lögum. Halldór hafi þá sagt að afla yrði þeirrar heimildar og Davíð svarað aftur með þessum orðum: „Eruð þið að safna innlánum án þess að tala við þjóðina um skuldbindinguna? Þið tveir getið ekki gert þjóðina gjaldþrota.““ Hverju skyldi núverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, hafa svarað? 

Og nú hefur Geir upplýst að José Manuel Baroso hafi hringt í sig í hruninu og lagt hart að honum að gæta hagsmuna kröfuhafa bankanna og fara írsku leiðina.

Geir bar fyrir dómi að fram að falli Lehman Brothers 15. september 2008 hafi hann ekki talið að það steðjaði slík hætta að íslensku bönkunum að réttlætanlegt hafi verið fyrir stjórnvöld að grípa til aðgerða gagnvart þeim, heldur hafi stjórnvöld fremur átt að styðja við þá, svo sem með því að leitast við að efla tiltrú almennings og fjárfesta á þeim, í þeirri von að erfiðleikar á fjármálamörkuðum gengju yfir. Svipað viðhorf kemur fram hjá breska FSA sem vitnað er í í dómnum. Þetta virðist galið í dag í ljósi þess sem síðar gerðist. En þá er t.d. ágætt að hafa í huga að sama dag og Lehman féll skrifaði Ágúst Einarsson, prófessor í hagfræði, rektor Háskólans á Bifröst, fyrrum þingmaður og helsti hugsuður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, inngang að bók sinni „Greinasafn síðara bindi.“ Þar var meðal annars að finna greinina „Þróun bankakerfisins. Af hverju er Kaupþing svona stórt?“ og svarið var: „Bankinn óx fljótt, tók mikið af lánum og eignaðist miklar eignir … Sigurður og Hreiðar Már eru hörkuduglegir og vel menntaðir bankamenn sem hafa skýra framtíðarsýn […] Einkenni Kaupþings er að hann byggist á vel menntuðu ungu fólki, er áræðinn í nútímaviðskiptum og fljótur að taka ákvarðanir.“ 

Skyldi hann hafa birt þessa grein ef hann vissi að bankakerfið væri að hrynja?

Þessi upprifjun Óðins er ágæt og minnir á hversu lítið vit er oft í gaspri hagfræðinga og hversu fjarri „íslenska fræðasamfélagið“ var því að hafa minnsta skilning á því hvert stefndi. Innan íslenska „fræðasamfélagsins“ datt engum í hug að bankarnir væru komnir svo langt út á bjargbrún að þeim yrði ekki lengur bjargað, rétt eins og innan „fræðasamfélagsins“ datt engum í hug að neitt væri ólögmætt við gengislánin sem tugþúsundir Íslendinga tóku árum saman og enginn sá neitt að.

En eftir að bankarnir voru hrundir og eftir að hagstæðu lánin voru orðin óhagstæð, þá sáu þeir þetta allt fyrir. Og fjölmiðlamennirnir ekki síður.