Laugardagur 5. maí 2012

Vefþjóðviljinn 126. tbl. 16. árg.

Meðal helstu viðmælenda Spegilsins úr hópi svonefndra álitsgjafa eru vinstrimenn á borð við Þórólf Matthíasson og Eirík Bergmann Einarsson.

En hvernig lítur skiptingin út á milli stjórnmálaflokkanna og svo stjórnar og stjórnarandstöðu? Viðskiptablaðið birti í síðustu viku þetta svar við þeirri spurningu.

Í sjálfu sér kemur það ekki á óvart að ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpið dragi taum vinstriflokka og annarra sem vilja þenja ríkisbáknið út. En umsjónarmenn Spegilsins stunda þetta alveg blygðunarlaust. Líklega hafa þeir talið sig geta komist átölulaust upp með þetta því „hér varð auðvitað hrun.“

Nú vill svo til að um Ríkisútvarpið gilda sérstök lög þar sem stofnuninni er gert skylt að gæta jafnvægis í dagskrárgerð og fréttaflutningi. „Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“

Hvers vegna er ekki gengið á Spegilsmenn, svonefndan útvarpsstjóra og stjórnarmenn Ríkisútvarpsins um það hvort þeir líti svo á að Spegillinn fari að þessum lögum?