Mánudagur 7. maí 2012

Vefþjóðviljinn 128. tbl. 16.árg.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkið hafa nú samið um stóraukinn fjáraustur í svokallaðar almenningssamgöngur – og er þá ekki átt við einkabílinn, sem er þó sá samgöngumáti sem yfirgnæfandi meirihluti fólks kýs að nýta sér.

Íslensk stjórnmál og fjölmiðlar eru full af fólki sem ekkert sér að því að hið opinbera hafi vit fyrir fólki og stjórni daglegu lífi þess sem mest. Þess vegna aukast umsvif hins opinbera á ofsahraða og skattheimta er hert ár frá ári. Kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru flestir tæknikratar sem enga sérstaka hugsjón hafa til að standa gegn þessari þróun. Þeirra frjálshyggja er að hið opinbera fari betur með peningana, haldi útboð, vinni faglega. En ekki að hið opinbera leyfi fólki að stjórna lífi sínu sem allra mest sjálft.

Og þess vegna er alltaf gengið lengra. Einn daginn eru framlög í opinbera strætisvagna aukin um milljarð. Daginn áður voru sett mötuneyti í alla opinbera skóla. Daginn þar áður var hjólreiðamönnum skipað að vera með hjálm. Þar áður var fullorðnu fólki bannað að leyfa reykingar í eigin húsum. Þar áður var ríkissjóði beitt af mikilli ákefð til að múta körlum til að fara í fæðingarorlof. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sveitarstjórnarmenn hafa ekkert á móti þessu. Þetta er allt faglegt.