Vefþjóðviljinn 123. tbl. 16. árg.
Er ekki sjálfsagt að rifja þetta tvennt upp af og til, þar til jafnvel fréttamenn fá áhuga á því?
Í fyrsta lagi, Sveinn Arason ríkisendurskoðandi. Eins og rakið var á dögunum þá neitaði hann að láta stofnun sína vinna úttekt á margra milljarða framkvæmd sem reynt er að fá ríkisábyrgð á. Sveinn bar við að hann sjálfur væri vanhæfur til að vinna þetta verk, vegna fjölskyldutengsla við Kristján Möller stjórnarmann í Vaðlaheiðargöngum ehf.
Ættu þó flestir að vita, jafnvel þótt þeir séu ríkisendurskoðendur, að vanhæfi forstöðumanns veldur ekki vanhæfi stofnunarinnar sjálfrar. Vanhæfi Sveins Arasonar hefur því engin áhrif á skyldu ríkisendurskoðunar að vinna verk sem þingnefnd óskaði eftir. En fréttamenn virðast ekki hafa nokkurn áhuga á undanbrögðum Sveins Arasonar í málinu.
Og á dögunum kom fulltrúi fjármálaráðuneytisins fyrir þingnefnd vegna frumvarps um ríkisábyrgð á gangagerðinni. Hann heitir Þórhallur Arason, bróðir Sveins. Gæti verið að hann hafi mælt með ríkisábyrgð á framkvæmdinni?
Í öðru lagi, Sigrún Davíðsdóttir og rannsóknarnefnd alþingis. Eins og Vefþjóðviljinn hefur nefnt þá virðist sem annað hvort Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari Ríkisútvarpsins, eða nefndarmenn í rannsóknarnefnd alþingis hafi farið með ósannindi um samskipti fréttaritarans og nefndarinnar. Hversu lengi ætlar Ríkisútvarpið að láta eins og það taki ekki eftir málinu? Hversu lengi ætlar Ríkisútvarpið að draga það að upplýsa áheyrendur um hvort það hafi verið fréttaritari Ríkisútvarpsins sem sagði ósatt um samskipti sín við nefndarmennina, eða nefndarmenn rannsóknarnefndarinnar, einn eða fleiri, sem fór með ósannindi um þau samskipti í opinberri yfirlýsingu?