Þriðjudagur 1. maí 2012

Vefþjóðviljinn 122. tbl. 16. árg.

Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði heldur áfram að fagna fyrir hönd hinna tekjulægstu, þótt kjör þeirra hafi versnað undanfarin ár. Í gær kynnti hann skýrslu sína um kjaramál á árunum 2008 til 2010. Þar kemur fram að tekjur hinnar tekjuhæstu lækkuðu meira en hinna tekjulægstu.  Af kynningu Stefáns að dæma mætti ætla að það sé mjög saðsamt fyrir hina fátækustu að hinir tekjuhæstu verði fyrir tekjutapi. Hann virðist telja það sérstakt keppikefli fyrir hina fátæku að tekjur hinna launahæstu lækki því þá aukist „jöfnuður.“ Tekjutap hálaunaliðsins er með einhverjum dularfullum hætti magafylli fyrir hina fátæku.

Auðvitað blasir það við að þegar heilt fjármálakerfi, þar sem greidd voru afar há laun, fer um koll að margt vel launað fólk missir spón úr aski sínum. En það er auðvitað enginn sérstakur sigur fyrir hina fátækustu, hvað þá einhver merkilegur árangur ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms.

Í umræðu um tekjudreifingu og tekjuhópa vantar síðan yfirleitt að menn flakka á milli tekjuhópa. Menn hafa oft lágar tekjur á námsárum og fyrstu ár starfsævinnar, svo hækka þær um miðja starfsævina en lækka ef til vill er líður að eftirlaunaárum.

Vafalaust er til fólk sem hafði fremur lágar tekjur á árunum fyrir bankahrunið en hefur átt kost á meiri tekjum undanfarið. Það má til að mynda ætla um þá sem hafa tekjur í erlendri mynt. En nú þegar þeir hafa flust upp um tekjuhóp lenda þeir í hinni harkalegu skattheimtu vinstri stjórnarinnar og greiða 47% tekjuskatt af viðbótartekjum sínum.