Vefþjóðviljinn 121. tbl. 16. árg.
Fjármálaeftirlitið auglýsti eftir nýjum forstjóra með hálfrar síðu blaðaauglýsingu um helgina.
Mörgum þykir fjármálaeftirlitið gríðarlega mikilvæg stofnun, enda fer það með eftirlit ríkisins með fjármálafyrirtækjum. Kröfurnar til forstjórans hljóta því að vera afar miklar. Þrautreyndur þungavigtarmaður sem sér í gegnum blekkingar og skrum, er auðvitað maðurinn sem leitað er að.
Eða hvað?
Hálfrarblaðsíðu auglýsingin er undir stórri fyrirsögn: „Forstjóri Fjármálaeftirlitsins – drífandi leiðtogi“.
Í auglýsingunni sjálfri eru svo talin upp nokkur atriði sem horft verður „sérstaklega“ þegar nýi forstjórinn verður ráðinn.
Hvað ætli sé efst á blaði?
„Framúrskarandi leiðtoga- og samskiptahæfileikar“.
Neðar eru svo talin upp smáatriði eins og „Þekking og starfsreynsla á fjármálamarkaði“, „Þekking og reynsla af stjórnunarstörfum“, en ekkert er sagt um að slíkt þurfi að vera „framúrskarandi“.
Þegar ráðinn er forstjóri í Fjármálaeftirlitið þá er með öðrum orðum lögð langmest áhersla á „leiðtoga- og samskiptahæfileika“. Litlu skiptir hvað hann veit og skilur um grunnatriði fjármálamarkaðar eða lög og reglur sem þar gilda, ef hann er nógu drífandi og hefur framúrskarandi samskiptahæfileika. Ef mönnum líkar við hann við fyrstu kynni, þá þarf hann fátt annað að hafa fram að færa.