Föstudagur 27. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 118. tbl. 16. árg.

Rit Lysanders Spooners, <i>Löstur er ekki glæpur</i>, komið í hendur lesenda.<br /> <font size="1">Mynd: Blaðið 29. júní 2007.</font>
Rit Lysanders Spooners, <i>Löstur er ekki glæpur</i>, komið í hendur lesenda.<br /> <font size=”1″>Mynd: Blaðið 29. júní 2007.</font>

Hversu langt mega menn ganga til að þvinga aðra til að deila með sér siðferði sínu? Mega Gunnar, Héðinn og Njáll þvinga Flosa til að haga lífi sínu eftir gildismati þremenningana, bara af því að þeir eru fleiri? 

Það vantar ekki, að vinstrimenn eru flestir ákafir að flytja fyrirlestra um eigið umburðarlyndi. Þeim finnst gjarnan þeir sjálfir vera víðsýnir og fordómalausir, en trúa því að hægrimenn séu forpokaðir, þröngsýnir og siðavandir. Nútímalegir vinstrimenn taka sér gjarnan regnbogann að tákni – þeir dæmi engan heldur leyfi öllum að njóta sín á eigin forsendum.

En hver er raunveruleikinn?

Er hann ekki sá, að vinstrimennirnir eru jafn fordómafullir og þeir halda að andstæðingarnir séu? Nútímalegur vinstrimaður er auðvitað yfirleitt mjög ákafur í að láta í ljós að ekkert sé að því að einstaklingar af sama kyni búi saman, gangi í hjónaband og eignist jafnvel barn með einhverjum aðferðum. Menn verði bara að virða það að fólk sé ólíkt, það sem einn geti ekki hugsað sér sé fyrir öðrum eðlilegasti hlutur í heimi. Allir verði að virða val annarra. Menn leiti hamingjunnar eftir ólíkum leiðum.

Gott og vel, en hvað ef einstaklingurinn sem vill búa með öðrum af sama kyni – við mikinn skilning vinstrimannsins – vill nú framfleyta þeim hjónum með nektardansi? Er vinstrimaðurinn þá jafn umburðarlyndur og skilningsríkur á að menn hafa ólíkt gildismat? Trúir vinstrimaðurinn því yfirleitt að nokkur geti viljað dansa nakinn fyrir annað fólk gegn greiðslu? Greiðslu sem oft mun vera töluvert rífleg? 

Eða getur kannski verið að þá sé umburðarlyndi vinstrimannsins lokið? Að umburðarlyndið sé ekki meira en svo, að hann umberi bara það sem honum sjálfum líkar, en það sem honum mislíkar umberi hann  alls ekki? En hvaða umburðarlyndi er það? Er það eins og skoðanafrelsi sem aðeins leyfir vinsælar skoðanir?

Sumir falla í þá gryfju að halda að þeir sem verja rétt manna til að hegða sér með tilteknum hætti, séu jafnframt stuðningsmenn þess að mennirnir hegði sér þannig. En þar á milli þarf ekki að vera nokkurt samband. Maður getur verið eindreginn talsmaður þess að allir hjólreiðamenn noti hjálm, en jafn andvígur því að þeim verði gert það skylt. Maður sem ekki gæti hugsað sér að dansa nektardans eða taka í nefið getur verið eindreginn baráttumaður fyrir því að samborgurunum verði ekki bannað það. Þessi maður skilur einfaldlega að löstur er ekki glæpur og að ríkið á ekki að beita refsivendinum til að venja fólk af því sem meirihlutanum hverju sinni kann að finnast hvimleiður löstur. 

Frelsið til þess að fá að stunda lesti sína í friði fyrir púritönum er eitt af því sem gerir mann frjálsan. Lestirnir eru ekki endilega góðir, en bannið við þeim er vont.