Fimmtudagur 26. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 117. tbl. 16. árg.

Eitt og sér hljómar það ekki vel að ekki hafi verið haldnir formlegir og bókaðir „ráðherrafundir“ um jafn „mikilsverð málefni“ og vanda bankana er óveðursskýin hrönnuðust upp á árinu 2008. En þarna réð vafalítið að einhverju leyti sú hefð sem skapast hafði um störf ríkisstjórna um áratugi. En hitt er jafn ljóst að vandann sem við var að glíma mátti ekki nefna upphátt. 

Og hvers vegna þurfti að fara með það sem mannsmorð að bankarnir stæðu tæpt? Hvers vegna var sannleikurinn ekki talinn húsum hæfur?

Það er vegna þess að íslenska ríkið hefur eins og ríkisvaldið í flestum öðrum lýðræðisríkjum tekið að sér það hlutverk að gæta að fjármálastöðugleika, hafa eftirlit með bönkum og vera lánveitandi þeirra til þrautavara, auk þess að gefa mönnum margvíslegan ádrátt um að ekki sé mögulegt að tapa peningum sem lagðir eru inn í banka.

Ríkisvaldið ætlar sér með öðrum orðum að rétta af banka sem tapað hafa fé og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þar til það finnur ráð til þess í hverju tilviku má ekki bera vanda bankans á torg því þá hlaupa viðskiptavinir á brott með innstæður sínar og vandinn verður nær óviðráðanlegur, ekki síst er margir bankar eiga í hlut.

Þar til menn láta af þessum afboðslegu afskiptum ríkisins af fjármálakerfinu og sætta sig við að peningar í banka geta tapast er hætt við að ríkisvaldið muni áfram taka þátt í að breiða yfir vanda fjármálafyrirtækja.