Miðvikudagur 25. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 116. tbl. 16. árg.

Samkvæmt skýringarmynd á vef ríkisendurskoðunar virkar stofnunin svona, nema þegar Sveinn Arason telur Kristján Möller vera tengdan sér.
Samkvæmt skýringarmynd á vef ríkisendurskoðunar virkar stofnunin svona, nema þegar Sveinn Arason telur Kristján Möller vera tengdan sér.

Nú er reynt að troða gegnum Alþingi ákvörðun um að ríkissjóður veiti níu þúsund milljóna króna ríkisábyrgð vegna gerðar ganga í gegnum Vaðlaheiði. 

Þeir sem heimta að fá göngin grafin veifa skýrslum sem þeir segja að sýni að veggjöld muni duga fyrir kostnaðinum og aldrei muni króna falla á ríkið.

Það er líklega þess vegna sem þeir fá hvergi lán nema ríkisábyrgð sé á láninu. Það er líklega líka þess vegna, sem þeir vilja alls ekki að Alþingi fái óháða úttekt á skýrslunum og útreikningunum.

Þegar samgöngunefnd Alþingis fór fram á að að ríkisendurskoðun færi yfir málið þá hreinlega neitaði Sveinn Arason ríkisendurskoðandi því, og gaf þá skýringu að hann sjálfur væri vanhæfur til þess, þar sem hann væri nátengdur Kristjáni Möller, sem bæði situr á þingi og í stjórn félagsins sem vill fá ríkisábyrgðina.

Og þingmenn og fjölmiðlar virðast ætla að láta Svein Arason komast upp með þetta. 

En þó eiga allir að vita að sé forstöðumaður opinberrar stofnunar vanhæfur til að vinna verk, þá neitar stofnunin ekki að vinna það, heldur er annar maður settur í stað hins vanhæfa. Þess vegna á að setja nýjan ríkisendurskoðanda í stað Sveins í þessu máli, og svo á að vinna verkið.

Það að ríkisendurskoðandi hafi neitað að stofnun sín ynni verk fyrir Alþingi, með þessum rökum, getur varla þýtt annað en tvennt:

•         Ríkisendurskoðandi áttar sig ekki á einföldu grundvallaratriði í stjórnsýslu

eða

•         Ríkisendurskoðandi hefur uppi skammarlegan fyrirslátt til að koma í veg fyrir að stofnun hans vinni verk fyrir Alþingi, í máli sem varðar mörg þúsund milljónir króna.

Hversu lengi ætla fréttamenn að láta Svein Arason ríkisendurskoðanda komast upp með framgöngu sína í málinu? 

Svo neitun Sveins Arasonar á því að ríkisendurskoðun skoði málið sé sett í samhengi, þá geta menn ímyndað sér að Kristján Möller væri enn samgönguráðherra. Myndi ríkisendurskoðun þá ekki endurskoða samgönguráðuneytið? 

Svarið við því er auðvitað augljóst. Jafn augljóst er að ríkisendurskoðun bar og ber að vinna það verk sem þingnefnd Alþingis beindi til stofnunarinnar. Það að Sveinn Arason hafi neitað að láta stofnun sína vinna verkið, er grafalvarlegt mál sem ekki er lokið.