Þriðjudagur 24. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 115. tbl. 16. árg.

Markaðurinn leiðrétti sig ekki.

Þriðja leiðin, frelsi einkafyrirtækja undir eftirliti og með ábyrgð ríkisins, er öngstræti.
Þriðja leiðin, frelsi einkafyrirtækja undir eftirliti og með ábyrgð ríkisins, er öngstræti.

Þetta er kenningin. Fjármálakerfi Vesturlanda fór á hliðina því menn ofmátu getu markaðarins til að rétta sig af.

Og það má til sanns vegar færa að markaðurinn hafi ekki leiðrétt sig. Enda stóðu ekki efni til þess. Það reyndist hins vegar nauðsynlegt að vinda ofan af afleiðingum ýmissa ríkisafskipta.

* Lágvaxtastefna helstu seðlabanka lét glórulausar fjárfestingar líta vel út til skamms tíma.

* Raunveruleg og ætluð ríkisábyrgð á bönkum gerði bankamenn kærulausa. Þeim yrði alltaf bjargað.

* Gríðarlegt opinbert eftirlit með bönkunum gerði viðskiptavini þeirra rænulausa. Öryggið sem eftirlit embættismanna veitti var falskt.

* Innstæðutryggingakerfi sem hið opinbera setti upp voru villuljós.

* Ofboðslegur kostnaður við að framfylgja lögum og fullnægja eftirliti leiddi til samþjöppunar fjármálafyrirtækja og þar með minni áhættudreifingar.

* Ríkisvaldið studdi og hvatti almenning til húsnæðiskaupa. Lágvaxtastefna, vaxtaniðurgreiðslur og ofboðsleg keppni opinberra íbúðalánasjóða (Fannie Mae, Freddie Mac, Íbúðalánasjóður) við banka um að moka út lánsfé til íbúðakaupa gat af sér húsnæðisbólu.

Um það hefur verið þokkaleg sátt á Vesturlöndum undanfarna áratugi að draga úr ríkisrekstri í almennri atvinnustarfsemi og leyfa einkafyrirtækjum að spreyta sig. Með því fororði þó að ríkið setji nákvæmar reglur, hafi stíft eftirlit með því sem fram fer og gæti þess að enginn fari sér að voða, líkt og upptalningin hér að ofan ber með sér hvað fjármálastarfsemi snertir. Þetta fyrirkomulag, einkarekstur undir handleiðslu ríkisvaldsins, hefur verið kennt við „þriðju leiðina“ eða einhvers konar „félagslega markaðshyggju“ eða „Blairisma“. Miðjumoð mynd kannski einhver segja. 

Ef menn telja fjármálakreppuna vera vísbendingu um að kerfið hafi brugðist hlýtur þetta samkrull einkarekstrar og opinbers eftirlits að vera í uppnámi.