Mánudagur 16. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 107. tbl. 16. árg.

Forsetakosningarnar í sumar gefa tilvalið færi á að stríða Samfylkingarmönnum, sem nú vilja skipta um krata á Bessastöðum. Segja við þá, að nú hafi maður einmitt fundið forsetaefni sem allir ættu að geta sameinast um. Þegar þeir spyrja hvert það ofurmenni sé, þá segist maður hafa í huga þrautreyndan mann, með yfirburðaþekkingu á íslensku stjórnkerfi og alþjóðamálum, með gríðarlega reynslu af alþjóðlegu samstarfi, ákaflega duglegan og tali ótal tungumál… Björn Bjarnason.

Þegar þeir æpa að um hann verði aldrei sátt, hann sé umdeildur, hafi verið í stjórnmálum, sé fyrrverandi ráðherra og alla þá frasa, þá á að spyrja þá hvern þeir hafi stutt árið 1996.

Því þá studdu kratarnir allir Ólaf Ragnar Grímsson, umdeildasta stjórnmálamann landsins, fyrrverandi fjármálaráðherra og þáverandi alþingismann Alþýðubandalagsins. Sömu kratar og kusu hann allir, vilja nú skipta Ólafi Ragnari út en vilja fá að ráða hver komi í staðinn.